„Aftur hefur tíminn flogið, enn á ný er kominn desember“ segir í einu jólalaga uppáhaldssöngvarans míns og líkt og í fyrra og hittifyrra þá er ég eins og ungbarn, full af undrun yfir því hvað þessi blessaði tími er alltaf að flýta sér. Eins og við öll kannski, flýta okkur að verða stór, flýta okkur að klára þetta og hitt, gera og græja, flýta okkur hingað og þangað og gera svo margt, sérstaklega í desember þegar gjörsamlega er offramboð af viðburðum, skemmtilegheitum og bara alls konar til viðbótar við þetta dags daglega sem er alla hina mánuðina.

Þrátt fyrir að jólin séu alltaf á sama stað í dagatalinu, 24. desember og svo næstu daga koll af kolli, þá er ég aldrei nokkurn tíma búin að gera þetta „allt“ fyrir jólin þegar þau loksins detta inn og ég er enn að reyna að átta mig á hvað þetta allt er. Kannski af því að ég hef aldrei almennilega náð að koma mér upp jólahefðum, fram á fullorðinsár var ég og/eða barnsfaðir minn í prófum þangað til „korter í jól“, flestum matarboðum var svo varið hjá foreldrum mínum eða öðrum ættingjum, þannig að það þurfti lítið að gera nema passa að vera skrúbbuð og spariklædd þegar klukkan sló heilagt á aðfangadag. (Með ungbarn hafðist þetta ekki alltaf, en manni var strax fyrirgefið, enda fyrirgefning í anda jólanna). Eftir að ég skildi tók kona síðan bara feginshendi því boði að vera aftur í mat hjá foreldrum sínum.

Sumir alast upp við ákveðnar jólahefðir í foreldrahúsum og halda þeim svo við eftir að vera flutt að heiman, á meðan aðrir eru meira ,,ligeglad” og eru alltaf að breyta eða bæta við sínar hefðir. Þegar fólk byrjar líka að rugla saman reytum er líklegt að tvenns konar jólahefðir mætist og þurfi á málamiðlun að halda, hvort eiga að vera rjúpur eða hamborgarhryggur í mat á aðfangadag og sá karlmaður sem mun rugla jólahefðum saman með mér, mun sennilega strax átta sig á að ég elda ekki eins og mamma hans og því kannski bara best að hann standi fyrir framan eldavélina um jólin, meðan ég legg á borð.

Það sem upp úr stendur líklega þegar rykið er sest aftur eftir jólin, jólapappír kominn í endurvinnsluna og jólasteikin farin að svitna af lærunum í ræktinni er að jólin eru fyrir utan að vera orð í orðabókinni ekki eitthvað eitt, heldur bara allskonar. Jólin eru akkúrat það sem þú vilt að þau séu, fyrir þig. Jólin eru fyrst og fremst tilfinning sem á að fá þig og þína til að líða vel, allt árið um kring, ekki bara um eina helgi.

Móment

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

2016, Aldís Pálsdóttir, Ásta Garðarsdóttir, séð & heyrt, Starfsmannamynd, SH1606012200, Ragna

 

Related Posts