Ég hef aldrei verið mikið jólabarn. Ég hef aldrei skilið ástæðuna fyrir því af hverju ég er ekki eins og vinkonur mínar sem eru að missa sig í gleðinni sem fylgir komu jólanna á hverju ári. Seint í nóvember eru þær byrjaðar að baka fjölda tegunda af smákökum og skreyta allt hátt og lágt heima hjá sér.

SH-1333-65-64910 SH-1333-65-64910

Anna Gréta Oddsdóttir

Þegar við síðan hittumst vinkonurnar þá kjafta þær hver ofan í aðra um það hvaða tegundir af smákökum skal baka þetta árið og hvaða jólamyndir séu látnar í tækið í þynnkunni á sunnudagsmorgnum. Ég „fussum sveia“ yfir kjánaganginum í vinkonum mínum í hljóði og bíð þess að samræðurnar færist upp á annað og vitsmunalegra stig.

Ég hef aldrei skilið ástæðuna fyrir því af hverju það vantar allan þennan jólaanda í mig en eftir þriggja ára háskólanám í sálfræði og endalausar spekúlerasjónir yfir þessum jólaleiða hef ég komist að niðurstöðu. Ástæðuna má finna í því að ég er skilnaðarbarn. Foreldrar mínir skildu þegar ég var sex ára með tilheyrandi ráðstöfunum. Mér yrði skipt kurteisilega á milli foreldra minna þannig að allir væru sáttir. Pabbi og mamma skiptust á að hafa mig um jólin og áramótin. Þetta var allt gert í mikilli sátt og allir aðilar glaðir – eða kannski ekki.

Þetta leiddi af sér að önnur hver jól vantaði mig annaðhvort mömmu eða pabba. Þar sem þau bjuggu í mismunandi landshlutum gat ég ekki skroppið til mömmu þegar ég var búin að opna pakkana og öfugt. Skilnaðarbörn fá ekki að njóta jólanna með allri fjölskyldu sinni og er því eðlilegt að jólin veki upp kvíða hjá þeim börnum.

Nú er ég að nálgast þrítugsaldurinn og jólabarnið í mér vex samhliða árunum sem færast yfir mig. Ég er byrjuð að stilla á Léttbylgjuna í bílnum þegar ég er í stuði og um síðustu helgi valdi ég jólamynd á Netflixinu. Ég er samt ekki enn þá byrjuð að baka smákökur og ég þverneita að taka þátt í samræðum vinkvenna minna.

En eins og sagt er – góðir hlutir gerast hægt.

Related Posts