Haustið er að koma! Laufin falla af trjánum, rigning, rok og skammdegisþunglyndi.

Haustið er sá tími ársins sem ég væri helst til í að sleppa. Þá er vont veður, engin sól og jólin enn ekki komin. Ég er ekki mesta jólabarn í heimi en þegar jólaskreytingarnar byrja að sjást þá fer ég strax að hlakka til. Jólin fengu alveg nýja merkingu þegar ég var í kringum sextán ára aldurinn. Til tíu ára aldurs snerist allt um pakkanna. Stærstu gjafirnar fóru til mín, einkabarnsins, og gjafapappírinn flaug í allar áttir.

Þegar það fór að líða að fermingu og gagnfræðaskólinn við það að hefjast ákváðu prestar og kennarar að reyna að troða því í hausinn á mér að ég ætti að hugsa meira um Jesúbarnið og færa þakkir fyrir það að sjónhverfingamaður hefði fæðst fyrir 2000 árum. Guð, Jesús og allir hans frændur reyndu að troða sér inn í jólin mín og ég leyfði þeim það næstum því! Þegar ég sat við matarborðið, nýfermdur, og gerði mig kláran í að borða dýrindis kalkúna og fyllingu var mér hugsað til allra fermingarfræðslutímanna og hvernig ég ætti að haga mér á „afmælinu hans Jesú“ og ætti að færa honum og pabba hans þakkir fyrir kalkúnann hennar ömmu. Það var búið að troða Jesúm í hausinn á þrettán ára strák sem var bara svangur og langaði í jólamatinn sinn. Þetta tók ég ekki í mál.

Upp úr sextán ára aldri breyttust jólin til muna hjá mér. Litlu bræður mínir fengu stærstu pakkanna og ég sá um að taka til gjafapappírinn en það var allt í lagi. Ég var kominn með nýtt markmið – borða á mig gat. Ég komst að því hvað jólamaturinn væri góður. Kalkúnninn, fyllingin, sætu kartöflurnar og auðvitað sósan. Þetta voru sko jól.

Ég og móðir mín eigum það sameiginlegt að þegar kemur að jólunum getum við borðað nánast endalaust af kalkúna. Við sitjum þarna saman og troðum í okkur þangað til það þarf að hjálpa okkur á fætur.

Nú bar það til um þessar mundir… að ég varð alveg ofboðslega svangur um daginn. Ég hefði getað stokkið út í bakarí, Hagkaup, Serrano jafnvel en mig langaði í kalkúna. Ég pantaði eitt stykki mömmumat og það er ekki að spyrja að því. Þegar „litla barnið“ hennar mömmu biður um mat, fær það mat. Við slógum upp kalkúnaveislu með öllu tilheyrandi! Biddu fyrir þér hvað þetta var gott en eitt var öðruvísi. Ég fékk mér bara einu sinni á diskinn. Ég ætlaði ekki að trúa þessu, ég bara gat ekki meir. Kannski var þetta Jesú að segja mér að ég ætti ekki að vera að borða „afmælismatinn“ hans í ágúst en kannski var þetta bara undirmeðvitund mín sem vissi að ég væri að „svindla“ með því að borða jólamat í ágúst. Djöfull var þetta samt gott.

 

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts