Guðný Gígja (24) og Greta Salóme (28)  eru spenntar fyrir jólunum:

Sitt sýnist hverjum um hvenær megi fyrst byrja að spila jólalögin í útvarpinu en allir geta þó verið sammála um að þau skapa óviðjafnanlega stemningu. Allir eiga sér sín uppáhaldsjólalög og við spurðum tvær íslenskar tónlistarkonur, þær Guðnýju Gígju og Gretu Salóme um þeirra.

 

Horfir á jólamyndir og treður í sig konfektmolum:NL-1405-26-04051 NL-1405-26-04051

Guðný Gígja Skjaldardóttir spilar á gítar og syngur í hljómsveitinni Ylju. Ylja gaf nýlega út aðra breiðskífu sína sem heitir Commotion og er hljómsveitin á fullu þessa dagana að kynna hana. Söngkonurnar Guðný og Bjartey ætla samt að gefa sér tíma til að koma landsmönnum í jólaskap því þær eru að fara að syngja með Jólagestum Björgvins í Höllinni, þann 13. desember.

Hvernig jólatónlist ert þú hrifnust af?

Ég fíla mest gamla jólatónlist með listamönnum á borð við Nat King Cole og Sinatra. Jólalög með Ellý og Villa Vill eru líka yndisleg til að kveikja á jólagírnum.

Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?

Leppalúði með Ladda er uppáhaldsjólalagið mitt. Mér finnst það ótrúlega flott lag, skemmtilegur texti og ég elska að syngja það með henni Bjarteyju minni.

Hvað finnst þér vera ómissandi að gera á aðventunni?

Horfa á jólamyndir og hlusta á fallega jólatónlist á meðan ég treð í mig mandarínum og konfektmolum.

Hvað er í jólamatinn?

Heima hjá mér er humar í forrétt, alltaf rjúpur í aðalrétt og ris a la mande í eftirrétt.

Hvað er efst á óskalistanum fyrir jólin?

Omaggio-blómavasann – djók! Ég hef hreinlega ekki hugsað út í það.

Heldur þú fast í jólahefðir?

Já og nei. Ég er alveg opin fyrir breytingum sem leiða af sér nýjar og breyttar hefðir en ég vil halda í sumt. Til dæmis finnst mér ris a la mande ekkert sérstaklega góður en samt eitthvað svo ómissandi á jólunum.

 

Ómissandi að fara í mæðgnaferð í bæinn:VI-1207-10-64540 VI-1207-10-64540

Fiðluleikarinn og söngkonan Greta Salóme Stefánsdóttir hefur verið búsett í Bandaríkjunum síðan í júlí þar sem hún hefur verið á samning hjá Disney. Hún hefur sungið á tónleikum á Disney Dream-skipinu þeirra sem siglir milli Flórída og Bahamaeyja. Hún er nú komin heim til Íslands í stutt jólafrí en heldur aftur út í janúar þar sem hún mun spila á tónleikum í Denver í Colorado og svo tekur enn betri samningur við.

Hvernig jólatónlist ert þú hrifnust af?

Ég er hrifnust af þessum gömlu klassísku jólalögum, til dæmis í flutningi Dean Martin og Bing Crosby. Það eru þessi lög sem eru alltaf í gangi hjá mér á aðventunni.

Hvert er uppáhaldsjólalagið þitt?

Uppáhaldsjólalagið mitt er lagið Home for Christmas í flutningi norsku söngkonunnar Mariu Mena. Textinn er svo ofboðslega fallegur og lagið látlaust og einlægt.

Hvað finnst þér vera ómissandi að gera á aðventunni?

Á aðventunni finnst mér ómissandi að fara í hina árlegu mæðgnaferð í bæinn. Þá fer ég með mömmu og systur minni í bæinn og við tökum heilan dag í að „fá jól í augun“ eins og gamli kennarinn minn í MR, hún Ragna Lára, sagði alltaf.

Hvað er í jólamatinn?

Það er alltaf hamborgarhryggur í matinn hjá okkur og svo er súkkulaði-frómasið hennar mömmu ómissandi í eftirrétt.

Hvað er efst á óskalistanum fyrir jólin?

Þar sem ég er búin að vera erlendis í hálft ár núna þá er efst á óskalistanum að eyða sem mestum tíma með fjölskyldunni, eins miklum og ég mögulega get áður en ég held aftur út.

Heldur þú fast í jólahefðir?

Ég er hrikalega vanaföst þegar kemur að jólahefðum og það er sennilega vegna þess að jólin hafa alltaf verið haldin svo hátíðleg heima.

Related Posts