Jólapakkarnir hennar mömmu standa rykfallnir uppi á skáp, hún náði aldrei að opna þá, hún lést í hádeginu á aðfangadag. Og nú, bráðum ári síðar, stend ég frammi fyrir því að jólin nálgast óðfluga með öllu því havaríi, skyldum, venjum og siðum sem þessum tíma fylgir.

Hvernig getur rúmlega fertug kona tjaslað saman jólunum án mömmu? Skrýtin staða. Mamma var jólin, hún fæddist og dó á jólum. Aðventan einkenndist af skipulagi, hefðum og spekúlasjónum um það hvað skyldi gert og hver ætti að fá hvað. Ég hef haldið eigið heimili meira en hálfa ævina og mótað og skapað mína jólasiði en þeir hafa alltaf verið samofnir jólasiðum mömmu.

Okkar siðir voru ekkert merkilegir en annarra en þeir voru okkar. Við héldum jólin oftast saman, fjölskylda mín og foreldrar. Ýmist í mínu koti eða þeirra. Síðustu ár tók ég matseldina yfir og lagði mig fram við að ná fram rétta bragðinu af sósunni og tryggja að kalkúnninn væri meyr – alveg eins og mamma gerði.

Jólahaldið og undirbúningurinn gengu ekki alltaf þrautalaust fyrir sig, þetta var ekki alltaf bara kökuilmur og Dollý og Kenný í keleríi undir nálinni. Málamiðlanir og árekstrar einkenndu oftar en ekki aðventuna en það er ekki óalgengt, að mér skilst, á þessum spennuþrungna tíma.

Móðir mín átti gríðarlega mikið safn af alls konar jólaskrauti og munum. Sem reglu gaf ég henni eitthvað í þann fjársjóð á jóladag – enda átti hún afmæli þá. Kassarnir standa nú munaðarlausir og vængbrotnir uppi í hillu, hver kassi sérmerktur – jólakallar, jólatré og þar fram eftir götunum.

Ég er hálffeimin við þessa kassa og þori ekki að opna þá og sækja jólaskrautið hennar. Mitt jólaglingur er kyrfilega innpakkað innst í bílskúr vinkonu minnar – kona var sko að flytja.

Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki jólakraft í ár. Í ár ætla ég að gefa glimmeri og glingri frí – einbeita mér frekar að þeim sem standa mér nærri og skreyta jólin í ár með nærveru og væntumþykju. Slíku skrauti verður aldrei pakkað ofan í kassa.

Elskum og njótum á aðventunni og gerum lífið skemmtilegra, líkt og Séð og Heyrt gerir í viku hverri – enn þá.

Related Posts