Ég, Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir, játa það hér og nú að ég á við mjög svo mikla fíkn að etja. Sjúkleiki þessi hefur fylgt mér frá unga aldri og á rætur að rekja til þess er ég komst í kynni í við minn fyrsta kött. Já, kæru lesendur, ég er kattafíkill. Ég er það sem í daglegu tali er kallað k k k eða klikkuð kattakerling.

Þetta byrjaði allt mjög sakleysislega, líkt og annar lúmskur ávani, ein kisa, ekkert mál. Snælda hét hún og var mér allt í tilverunni, vinur og trúnaðarköttur. Samband okkar var slíkt að hún leitaði til mín þegar hún gaut sínum fyrstu kettlingum, uppi í rúmi hjá mér. Hún neitaði að færa sig þaðan, brýndi klærnar og hvæsti þegar reynt var að sannfæra köttinn um að betra væri fyrir hana og kettlingana að vera í skjóli úti í bílskúr. Þeir sem hafa rökrætt við ketti vita sem svo að slíkt er glötuð orrusta frá byrjun. Kettir hafa alltaf rétt fyrir sér. Snælda var gjöful og deildi með sér veiði sinni, hún lét það ekki eftir sér að færa björg í bú. Á tímabili varð mikil fækkun í smáfuglastofninum í Garðabæ og mýsnar, af einskærri hræðslu við veiðiklóna klóku, fluttu sitt hafurtask í Hafnarfjörðinn og dvelja þar enn.

Það kom að því að Snælda hvarf úr lífi mínu, aðframkominn af lífsþreytu og veikindum. Í hennar stað kom fjörugur drengur sem fylgir mér enn. Ég varð yfir mig ástfangin af frumburðinum en það var galli á þeirri lífsgjöf, hann malaði ekki. Það var sama hversu mikið ég klappaði honum og knúsaði, ekkert gerðist. Bláköld staðreynd blasti við mér. Sonur minn er ekki köttur. Hann er ekkert ólíkur einum í dag –skeggtískan sér til þess.

Ég fór í kattafráhald í nokkur ár, að minnsta kosti frá lifandi köttum. Það gekk á ýmsu í þeirri meðferð. Ég leitaði uppi ketti hvert sem ég fór, spillti köttum nágrannanna með reglulegum rækjudreifingum á bílaplaninu og reyndi með ýmsum klækjum að lokka þá til mín.

En svo kom að því að fíknin tók öll völd. Fyrst kom Blíðan ljúfa og góða inn í líf Garðabæjardömunnar og nú fyrir stuttu fyrir algjöra tilviljun bættust ærslabelgirnir Snælda yngri og Mía við hópinn. Nú er kátt í höllinni. Kettlingarnir nýta sér höllina sem sinn einkaleikvang, mala kröftuglega og éta eins og ljón. Daman Blíða lætur sér fátt um finnast og gefur þeim vart gaum.

Ég hleyp mjálmandi um húsið elti kattahár, fylli á vatnsbolla og matardalla, alsæl. Fátt er yndislegra en að vakna um miðja nótt með þrjá ketti malandi í kór og sofna aftur við þann blíða söng. Held að ég bæti ekki fleirum við, nema að Blíðan sé kettlingafull, þá kannski …

Mjá!

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Lesið Séð og Heyrt á hverjum degi!

Related Posts