Athafnamaðurinn Bolli Kristinsson (64) fékk tilboð sem hann gat ekki hafnað:

Bolli Kristinsson, kenndur við Sautján, hefur leigt japanska sendiráðinu Ashkenazy-höllina í Brekkugerði þar sem hann hefur búið sjálfur ásamt sínum til margra ára.

Ashkenazy-húsið í Brekkugerði er eitt glæsilegasta einbýlishús landsins, byggt fyrir píanóleikarann heimsfræga þegar hann fékk hér ríkisborgararétt sem tengdasonur þjóðarinnar. Húsið er risastórt, með innbyggðum tónleikasal og öllum þægindum.

mynd dans

MAGNAÐUR AFI: Bolli með sonarsyni sínum, Kristni Sigurðssyni, sem tók í Íslandsmeistaramótinu í suðuramerískum dönsum um síðustu helgi. Strákurinn á ekki langt að sækja hæfileikana þar sem Bolli hefur lært tangó í Argentínu og þykir einn sá besti.

Bolli hafði ekki hugsað sér að flytja en þegar fasteignasali á vegum japanska sendiráðsins hafði samband og bar upp ósk skjólstæðinga sinna var svarið stutt og laggott hjá Bolla: Nei!

Þá hringdi fasteignasalinn aftur og spurði hvort Bolli væri ekki til í að hugsa málið því hér væri verið að tala um alvörupeninga – eiginlega endalausa.

Þá bauð Bolli Japönunum í heimsókn og húsaleigusamningur var gerður á staðnum en upphæð hans hefur ekki verið gefin upp og verður líkast til aldrei.

Einu kröfurnar sem japönsku sendiráðsmennirnir gerðu var að eldhúsið yrði stækkað um 30 fermetra því þarna á að matreiða í framtíðinni og halda veislur – líkast til í gamla tónleikasal Ashkenazys.

Bolli fór því í að stækka eldhúsið um umsamda fermetra og var fljótur að. Við svo búið flutti hann sjálfur í íbúð á toppi gamla verslunarhúsnæðis síns sem hýsti Sautján á Laugavegi á uppgangstímum þess fyrirtækis og unir þar sæll við sitt – með húsaleigusamning aldarinnar í vasanum.

 

Related Posts