Borghildur Sverrisdóttir (40), hraust og heilsusamleg:

 

Í bókinni Hamingjan eftir Borghildi Sverrisdóttir er leiðbeint hvernig hægt sé að nota jákvæða sálfræði til að auka hamingjuna í sínu lífi og bæta heilsuna.

 

Hamingja og heilsa „Bókin snýst um það hvernig við getum skapað okkar eigin viðhorf og hugarfar og eflt þannig heilsu okkar líkamlega, andlega sem og félagslega,“ segir höfundur bókarinnar, Borghildur Sverrisdóttir.

Borghildur hefur lengi haft áhuga á jákvæðri sálfræði eða síðan hún stundaði nám í sálfræði við Háskóla Íslands. „Áhuginn kviknaði í skólanum og eftir að ég kláraði hann þá las ég mikið um þetta og fannst þetta vera mín nálgun á sálfræðina. Ég fann það hvað ég gat nýtt þetta mikið í mínu eigin lífi og fannst þetta hafa góð áhrif á heilsu mína.“

Borghildur segir að rannsóknir hafi margsinnis sýnt að vellíðan í daglegu lífi styrki ónæmiskerfið og hafi góð áhrif á heilsu fólks. „Mér finnst það merkilegt hvað við getum gert mikið með því einu að skapa jákvæð viðhorf sem eru okkur í hag og draga mann ekki niður.“

 

Reynslunni ríkari

Borghildur hefur skrifað heilsupistla í Fréttablaðið og Morgunblaðið undanfarin ár og starfaði sem einkaþjálfari og ráðgjafi í hátt í áratug. „Ég hef lengi haft áhuga á öllu sem viðkemur heilsu hvort sem það er andleg eða líkamleg heilsa. Þetta fer allt svo sannarlega saman. Það er því miður oft sem fólk gleymir andlegu heilsunni þegar það tekur heilsuna í gegn og einblínir á líkamlegu heilsuna. Þegar við erum að vinna að markmiðum þá lendum við í hindrunum og þá þurfum við að vera sterk andlega til að vinna á þeim hindrunum. Við þurfum líka að muna að vera duglegri að hugsa fallega til okkar sjálfra og líta ekki á mistök sem slæman hlut,“ segir Borghildur og brosir.

 

Vísindalega sannað

Mikið magn af sjálfshjálparbókum er í boði og segir Borghildur sína bók hafa mikilvægt atriði fram yfir aðrar sjálfshjálparbækur. „Ég vil ekki tala illa um aðrar bækur en „Hamingjan eflir heilsuna“ byggir á jákvæðri sálfræði frá fjölda vísindalegra rannsókna. Það er oft eitthvað sem vantar í bókaflóruna.“

Það kom fjölskyldu Borghildar ekki í opna skjöldu þegar hún ákvað að skella sér í bókaskriftir. „Ég lifi og hrærist í þessum heimi og pistlarnir mínir undanfarið ár hafa einkennst af þankagangi mínum hvað varðar andlega- og líkamlega heilsu.  Ég á yndislegan mann sem hefur stutt mig heilshugar. Hann hefur líka sjálfur nýtt sér þetta og veit af eigin reynslu hvað þetta gerir honum gott.“

 

Þakklæti

Borghildur segir bókina ætlaða öllum sem vilja bæta líf sitt andlega og líkamlega. „Við erum öll að ganga í gegnum mismunandi erfiða tíma og tökum misjafnlega á þeim. Ég finn að þessi mikilvæga viðhorfsbreyting, sem ég segi frá í bókinni, getur hjálpað mikið til þegar við tökum á vandamálum. Við þurfum að muna að vera þakklát og horfa á það jákvæða í lífinu en ekki einblína á hvað miður fór. Þessi hugarfarsbreyting getur komið manni langt,“ segir Borghildur og brosir.

Related Posts