Bent Kingo (26), framleiðandi og tökustaðastjóri Mara:

 Ævintýrahrollvekjan Mara kemur í kvikmyndahús á næsta ári. Mara er hrollvekja eins og þær gerast bestar en teymið sem stendur á bak við þessa mynd er að taka sín fyrstu skref þegar kemur að kvikmyndum í fullri lengd. Leikarinn Bent Kingo sér um framleiðslu myndarinnar ásamt því að sjá um áhættuleikinn og þá fá hendur hans að njóta sín á óvenjulegan máta.

TVEIR GÓÐIR: Bent Kingo og Magnús Ómarsson, einn af handritshöfundum og framleiðendum kvikmyndarinnar, eru stoltir af Mörunni.

TVEIR GÓÐIR: Bent Kingo og Magnús Ómarsson, einn af handritshöfundum og framleiðendum kvikmyndarinnar, eru stoltir af Mörunni.

Maran „Þetta er svona ævintýrahrollvekja með kómísku ívafi. Myndin fjallar um par sem flytur til Íslands til að opna gistiheimili upp í sveit. Þegar þau mæta á gistiheimilið þá taka þau eftir hlera í kjallaranum og undir honum er hola lengst niður í jörðina og þar leynist Maran. Mara er svona djöfull sem leggst á fólk þegar það sefur og veldur martröðum, þaðan kemur orðið nightmare í ensku, sem sagt mare,“ segir Bent.

Alveg eins hendur

Bent er útskrifaður leikari en hans hlutverk í myndinni er þó ekki eins og flest önnur hlutverk. Bent er maðurinn sem sér um áhættuatriðin í myndinni ásamt því að vera hendur aðalhlutverksins.

„Þetta var svolítið ferli hjá okkur. Okkur langaði bara að gera bíómynd sem okkur hefur dreymt um síðan við vorum krakkar. Magnús Ómarsson, Elvar Gunnarsson og Ingimar Sveinsson skrifuðu handritið og þá langaði bara að gera mynd sem þeir hefðu elskað þegar þeir voru yngri. Svona ævintýrahrollvekju fyrir alla.“

„Þetta er fyrsta myndin í fullri lengd sem ég framleiði en ég hef framleitt auglýsingar og tónlistarmyndbönd. Það er von á meira frá okkur en ég get þó ekki farið í nein smáatriði um það núna. Núna erum við bara að einbeita okkur að þessu en það mun koma meira í framhaldinu,“ segir Bent sem sér um áhættuatriðin í myndinni en það að vera áhættuleikari heillar hann.

„Ég er svolítið fyrir svona jaðaríþróttir og er einnig útskrifaður leikari. Fyrir mig var þetta bara tækifæri til að sinna því. Mig langaði að vera áhættuleikarinn í myndinni. Það er ekki eins og ég hafi verið þvingaður í það,“ segir Bent og hlær en hann hefur einnig það óvenjulega hlutverk að leika hendur aðalleikarans í sumum skotum.

„Við komumst að því fyrir tilviljun að ég og aðalleikarinn erum bara með alveg nákvæmlega eins hendur. Við ákváðum þá að vera ekkert að senda aðalleikarann út um allt þannig að í hvert skipti sem það kemur eitthvað skot af honum að leita að bókum eða kaupa í matinn þá eru það hendurnar mínar sem sjást.“

„Það er í raun enginn draumur að vera áhættuleikari en það væri gaman. Stóri draumurinn er að vera leikari og þetta er eitthvað sem fellur undir það. Ég myndi samt klárlega stökkva á það að vera áhættuleikari í einhverri stórmynd ef það myndi bjóðast.“

SH1611094562-1

GÓÐUR HÓPUR: Það er sannkallað einvalalið leikara og framleiðanda sem koma að myndinni Mara.

Alþjóðlegur markaður 

Bent og félagar hans hafa lokið við tökur á myndinni og ætla sér stóra hluti.

„Myndin er frumsýnd á næsta ári og fer í dreifingu á alþjóðlegum markaði en við munum sína hana líka í Senubíóum. Við erum búnir með tökur og erum að byrja núna á eftirvinnslunni. Við erum með söfnun á Karolinafund til að hjálpa okkur með hana þar sem við höfum ekki fengið neina styrki og séð um alla fjármögnun sjálfir. Svo er hægt að finna sýnishorn úr myndinni á Facebook-síðunni okkar sem heitir einfaldlega Mara.“

SH1611094562-2

AÐALLEIKARARNIR: Gunnar Kristinsson og Vivian Ólafsdóttir eru í aðalhlutverkum og það verður forvitnilegt að fylgjast með baráttu þeirra við Möruna.

SH1611094562-3

KANN ÞETTA ALLT: Elvar Gunnarsson er leikstjóri kvikmyndarinnar og hann fær áhorfendur til að halda niðri í sér andanum og grípa í sætið.

Séð og Heyrt fylgist með góðum kvikmyndum.

 

Related Posts