Fyrir fjölda Íslendinga er jólamáltíðin ómissandi án hins hefðbunda möndlu- eða jólagrauts (ris a la mande) í lokin. Þessi siður er danskur að uppruna eins og margt annað í matarhefð Íslendinga. Raunar má uppruna hans rekja til neyðar kokks á hinu sögufræga Hotel D´Angleterre í Kaupmannahöfn seint að kvöldi fyrir yfir einni öld síðan.

Danska blaðið Politiken rifjar upp sögu ris a la mande í tilefni jólanna. Hún hefst sem fyrr segir fyrir yfir 100 árum síðan þegar hópur af eðalbornu fólki kom á hótelið og pantaði sér veglega máltíð. Þegar kom að eftirréttunum átti kokkurinn á vakt ekkert annað eftir í eldhúsinu en pott með köldum hrísgrjónagraut. Kokkurinn greip til þess ráðs að hakka möndlur ofan í grautinn og létta hann svo með þeyttum rjóma. Síðan fann hann tvær krukkur með kirsuberjasultu og notaði hana til að toppa réttinn. Eftirrétturinn ris a la mande var þar með fæddur.

Politiken ræðir við sagnfræðinginn Allan Mylius Thomsen um þennan rétt. Hann segir að þótt það liggi ekki skjalfest fyrir hvernig þessi réttur varð til má leiða góðum líkum að því að sagan frá Hotel D´Angleterre skýri uppruna hans. „Það er allavega ekkert til sem segir annað,“ segir Thomsen.

Í samtali blaðsins við veitingastjórann á Marchal veitingastaðnum sem tilheyrir hótelinu kemur fram að flestir fastagestir þess þekki söguna að baki ris a la mande.

Frá því að kokkur í neyð bjargaði sér með því að nýta kaldan hrísgrjónagraut seint að kveldi fyrir meir en öld síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Nú er ris a la mande jólahefð á flestum Norðurlandanna og í fjölda Evrópulanda þar að auki.

SÖGUFRÆGT HÓTEL: Hótel D‘ Angleterre er talið eitt af þjóðardjásnum Dana. Hótelið var um stund í eigu Íslendinga sem keyptu það á bóluárunum fyrir hrunið 2008.

SÖGUFRÆGT HÓTEL: Hótel D‘ Angleterre er talið eitt af þjóðardjásnum Dana. Hótelið var um stund í eigu Íslendinga sem keyptu það á bóluárunum fyrir hrunið 2008.

 

Related Posts