Var einróma niðurstaða dómnefndar:

Leikarinn og Íslandsvinurinn Viggo Mortensen fær Heiðursverðlaun Bodil í ár og var það einróma niðurstaða dómnefndarinnar að veita honum þessi verðlaun. Bodil eru kvikmyndaverðlaun Félags danskra kvikmyndagagnrýnenda og eru veitt árlega. Af öðrum sem fengið hafa Heiðurs-Bodil má nefna Ove Sprogöe, Helle Virkner, Bodil Kjer og Ghitu Nörby.

Hinn 56 ára gamli Viggo Mortensen mun verða viðstaddur verðlaunahátíðina sem fram fer í Bremen Teatret þann 28. febrúar en þetta verður í 68. sinn sem verðlaunin eru veitt.

Leikarinn er mikill Íslandsvinur og kemur hingað til lands reglulega. Hann hefur lýst yfir aðdáun sinni á náttúru Íslands opinberlega og segir hana veita sér innblástur í lífi sínu og störfum. Þá er hann sérlega áhugasamur um íslenska hesta enda bregður hann sér yfirleitt á bak þegar hann er í heimsókn á Íslandi.

Viggo Mortensen varð heimsfrægur fyrir leik sinn í myndunum um Hringadróttinssögu (Lord Of The Rings). Honum hefur gengið mjög vel síðan og má nefna hlutverk í myndum á borð við The Road og Eastern Promises.

Related Posts