Húð og heilsa

Ilmolíur hafa lengi fylgt manninum, en bæði Egyptar og Forn-Grikkir notuðu þær mikið, og þær eru notaðar enn í dag; bæði til yndisauka og til að bæta andlega og líkamlega heilsu. Þó að vissulega megi deila um virkni eða lækningamátt ilmolíumeðferðar er henni oft beitt samhliða annarri hefðbundinni meðferð til að auka vellíðan; til dæmis með því að draga úr kvíða eða bæta svefn. Ilmkjarnaolíur hafa marga mismunandi eiginleika og eru notaðar til að meðhöndla mismunandi kvilla. Þær geta einnig hentað misvel fyrir hvern og einn, því er best að prófa sig áfram og finna hvað hentar manni. Gæta þarf að því að nota eingöngu náttúrulegar ilmkjarnaolíur (e. essential oils) en ekki olíur með ilmefnum sem hafa ekki sömu virkni. Hér eru nokkrar þekktar ilmolíur og til hvers má nota þær.

essential oil and lavender flowers

RÓANDI: Lavender hefur róandi áhrif á líkama og sál.

Lavender:
Lavender, eða lofnarblóm eins og það heitir á íslensku, hefur róandi áhrif á líkama og sál. Gott er að setja nokkra dropa undir koddann til að tryggja væran nætursvefn en einnig er hægt að bæta henni í baðið, í bland við aðra góða olíu, til að eiga slakandi og endurnærandi stund. Lavender er einnig talin bakteríu- og sveppadrepandi svo hún getur reynst góð fyrir þá sem eiga við einhvers konar húðvandamál að stríða en ekki má nota hana óþynnta beint á húð.

Eucalyptus:
Eucalyptus-plantan frá Ástralíu er talin bæði bólgueyðandi og stíflulosandi. Hún virkar því vel á vöðva- og liðverki og er oft meðal innihaldsefna í hitakremum og bólgueyðandi kremum. Hún getur einnig verið góð fyrir lungu og kinnholur; til dæmis til að anda að sér og losa um stíflur. Settu þrjá til sex dropa í skál af heitu vatni, breiddu handklæði yfir höfuðið og andaðu gufunni að þér í nokkrar mínútur.

peppermint-oil

NAUÐSYN: Piparmynta virkar vel á höfuðverk.

Kamilla:
Kamilluolía er best þekkt fyrir róandi og slakandi áhrif en er mildari en lavender og má því nota á börn. Gott er að setja dropa undir koddann hjá börnunum fyrir svefn eða jafnvel nokkra dropa í baðvatnið eftir langan skóladag. Kamilla er einnig sögð hafa slakandi áhrif á meltingarkerfið og því er mælt með því að drekka kamillute þegar maður þjáist af magakveisu eða gubbupest.

Piparmynta:
Piparmyntuolía virkar bæði vel gegn meltingarvandamálum en einnig höfuðverkjum. Til dæmis má lina höfuðverk með því að nudda þynntri piparmyntuolíu á gagnaugun, slaka á og anda djúpt á meðan. Piparmyntan er líka frábær til að minnka ógleði, til dæmis er hægt að setja einn dropa í blautan, heitan þvottapoka, leggja hann svo upp að vitum sér og anda að sér til að minnka ógleðitilfinningu en piparmyntute er einnig góð lausn.

tea-tree-oil

BÓLUBANI: Tea Tree er góð á bólur.

Tea Tree:
Tea Tree-olía er sennilega þekktust fyrir bakteríudrepandi eiginleika sína; en hún er talin virk gegn bakteríum, sveppamyndun og jafnvel hárlús. Tea Tree-olían er mjög sterk og því er ekki mælt með því að nota hana óþynnta. Einnig þarf að gæta þess að blanda hana ekki of sterkt til að byrja með því þá er hætta á að húðin ofþorni, betra að byrja á veikari lausn og styrkja hana eftir því sem tíminn líður.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts