Þar sem ég stend fyrir framan snúningshurðina ógurlegu í IKEA rifjast ekki upp fyrir mér gleðitímar frá því að ég var yngri og reyndi að ná inn á síðustu stundu. Ég fæ kuldahroll niður allt bakið og byrja að svitna köldum svita því veit að um leið og ég geng inn er ekki aftur snúið.

Mig hryllir við tilhugsunina um það að bráðum þarf ég að fara í IKEA og kaupa mér sófa. Það skiptir nefnilega engu máli þótt þú vitir nákvæmlega hvar það sem þú ætlar að kaupa er staðsett því þú munt alltaf þurfa að eyða að minnsta kosti einum klukkutíma í viðbót við það að skoða einhverja hluti sem þú þarft ekki á að halda eða þá bara að leita að korti til að vita hvar þú ert staðsettur.

Alls staðar inn í IKEA stendur stórum stöfum á skiltum hvar útgangurinn er og hvernig skuli komast þangað en sjaldnast finn ég hann og enda einhvers staðar einn í búsáhaldadeildinni þar sem ég ligg út í horni og lem hausinn á mér með sleif sem kostar 99 krónur.

170130_ikea_logo

Flötu pakkarnir eru jafnvel enn skelfilegri því ég veit sem víst að um leið og þeir opnast munu hillur, grindur, skúffubotnar og skúffuhandföng endalaust vellast út. Svo ég tali nú ekki um allar skrúfurnar sem geta einhvern veginn aldrei haldið sér á sama stað og ég skildi þær síðast eftir.

Heilu helgarnar hafa farið í það að setja saman húsgögn frá IKEA og síðasta helgi sem varð fyrir barðinu og illsku IKEA var einmitt sú sem er nýliðin. Eftir margra klukkutíma ströggl við það að setja Hemnes-kommóðu saman var komið að sjónvarpsskenknum, síðan tók borðið við, stólarnir fylgja fast á eftir og til að fullkomna þetta allt þá fattaði ég á miðri leið að sjónvarpsskenkurinn var vitlaust samsettur.

Ég fæ heldur ekki þessa vellíðunartilfinningu þegar öllum verkum er lokið því innst inni veit ég að ég mun þurfa að fara aftur í IKEA því þar er alltaf eitthvað sem gleymdist að kaupa í síðustu ferð.

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts