S.O.S – Spurt og svarað:

 

Jóhann Alfreð Kristinsson er fyndinn fýr sem slegið hefur í gegn með uppistandshópnum Mið Ísland. Þessa dagana er hann hins vegar á fullu að vinna við Alþjóðlegu kvikmyndahátíðina- RIFF, en hann er viðburðastjórnandi þessarar vinsælu hátíðar. Meðal þess sem hátíðin býður upp á er bílabíó á bílastæðinu í Smáralind þann 26. september sem allir ættu klárlega að kynna sér.

 

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR?
Alfreð gamli – Horft um öxl.

HVER MYNDI LEIKA ÞIG Í BÍÓMYNDINNI?
John Turtorro fyrir 20-25 árum síðan myndi steinliggja. Hann þarf að fara að smella sér á HGH (Human Growth Hormone).

VIÐ HVAÐ ERTU HRÆDDUR?
Ég var hræddur við ýmislegt sem birtist í Lifandi vísindum um árið. Nú er ég bara hræddur við hvað tíminn líður hratt. Munið þið eftir Lifandi vísindum?

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ?
Það varðar engan sparnaðarreikning eða eitthvað svoleiðis. Það er bara alltaf eitthvað nýtt. Núna er það að halda bílabíó við Smáralindina á RIFF, þann 26. september.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR?
Í endursögn er eins og ég hafi verið með næringu í æð og á life support alla barnæskuna því ég var svo matvandur. En það hefur nú farið skánandi með árunum.

HVER ER ÞINN HELSTI VEIKLEIKI?
Rommý-súkkulaði og vinstra hnéð.

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST?
Það þarf ekki mikið til. Var hálfþreyttur og meyr að borða morgunmat um daginn og varð klökkur yfir hamingjusamri fjölskyldu í ákaflega vel skipulögðu rými í IKEA-bæklingnum.

EF ÞÚ ÞYRFTIR AÐ BÚA Í SJÓNVARPSÞÆTTI Í MÁNUÐ, HVAÐA ÞÁTT MYNDIRÐU VELJA?
Það væri fínt að taka Planet Earth í mánuð. Væri hægt að stroka helling af Bucket-listanum.

HVERJU ERTU STOLTASTUR AF AÐ HAFA VANIÐ ÞIG AF?
Ef ég fengi þessa spurning í lok janúar 2015 myndi ég segja reykingar. 

HVAÐ MYNDIRÐU ALDREI BORÐA?
Finnst ég ekki matvandur en strika beint í hangikjötið á þorrablóti.

HUNDUR, KÖTTUR, KANÍNA EÐA HAMSTUR?
Alltaf hundur. Held að hitt nagi svo svakalega.

ÁTTU ÞÉR EITTHVERT GÆLUNAFN?
Var kallaður Cat um árið. Bara yfir eina helgi á útihátíð samt. Óttalegt rugl. 

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í?
Tilkynnti úrslit í ræðukeppni með eitthvað óræðum hætti. Bæði lið fögnuðu sem sigurvegarar.

HVAR KEYPTIRÐU RÚMIÐ ÞITT?
Þetta er mánudagseintak sem var á tilboði í Rúmfatalagernum fyrir nokkrum misserum. Það kallaði á doktorspróf í verkfræði að skrúfa botninn undir miðað við leiðbeiningarnar sem fylgdu. Þannig að ég klúðraði því og nú hrynja spýtur undan botninum í hverri viku. Það er hálfskakkt og maður er nokkuð riðuveikur á því. Það er spurning um að skoða útsölurnar í janúar.

 

Related Posts