Fegurð Skotlands hefur smogið inn í hverja frumu og tekið sér varanlega bólfestu í líkama mínum. Skotland skartaði rómatískum haustlitum, grænir tónar sumarsins voru að víkja fyrir sterkari haustlitum sem blönduðust við fagurbleikt lyng sem einkennir flóru landsins.

Ferðinni var heitið að heimsækja nágranna okkar í Skotlandi og skokka um hæðir og hóla hálendisins. Hún hófst í iðnaðarborginni Glasgow þar sem saga heimsveldisins og iðnbyltingarinnar bókstaflega lekur af byggingum borgarinnar og enn má finna kolaryk í loftinu.

Skotar eru skemmtilega stoltir af sínu og hampa menningu sinni og náttúru við hvert fótmál, erfitt er að komast á milli verslana án þess að rekast á köflótt föt og trefla.
Eftir æsilega bílferð um sveitavegi var loks komið að áfangastað. Maður með hatt og frú með staf tóku á móti skelkuðum ferðalöngum, stigið var um borð í kænu sem flutti fólk og farangur yfir eitt hina mörgu vatna er öll nefnast Loch-eitthvað. Siglingin var ljúf og þvílík undur sem birtust hinum megin við vatnið. Allt stress eftir bílferðina hvarf með óminnishegranum um leið og kastalinn birtist. Þarna hafði tíminn aldrei liðið, hér gekk allt eftir mörg hundruð ára skipulagi sem engin ástæða er til að breyta.

Það er ekki á hverjum degi sem manni býðst tækifæri til að gista í kastala í skosku hæðunum, rölta um hálendið í fylgd skota íklæddum tweed-jakka með kaskeiti á höfði. Hér er fegurðin tímalaus og óendanleg. Hér eru venjuleg vestræn vandamál fjarri, því mestu skiptir hvort hann blási og hvaðan rignir. Hálendið minnir á Borgarfjörðinn og nokkuð skondið að vera í Borgarnesi á ensku. Gangan er ekki erfið en vætusöm, nokkuð sem íslensk hreystimenni láta ekki trufla sig.

Ég rýndi í hæðirnar og beið eftir eldspúandi drekum og sá fyrir mér breiður af þungvopnuðum karlmönnum í skotapilsum æða fram í vígaham. Það tilheyrir kastaladvöl. En engir voru þeir drekarnir né vígalegir bardagamenn, hins vegar var forláta kokkur á staðnum sem ég fékk samstundis matarást á. Allt sem hún Fiona bar fram var óviðjafnanlegt, jafnvel hafragrauturinn rann ljúft niður en hann hef ég ekki snert í tæp þrjátíu ár. Ég mun heimsækja þá skosku aftur – ævintýraheim rétt við útidyr Íslendinga sem allir ættu að kynna sér. Einu sinni var …

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts