Ég skellti mér með yngstu börnin til Spánar taldi að tími væri kominn til að hita kroppana og dæla í þá D-vítamíni. Drengirnir mínir eru vel vanir utanlandsferðum og kunna þá list að sitja stilltir og prúðir í flugvélum og hafa ofan af fyrir sér. Stefnan var tekin á Alicante og við staðráðin í því að hvíla okkur vel á leiðinni, sem gekk eftir án vandkvæða.

Á meðan svefnhöfginn rann á mig varð mér hugsað til þess þegar ég var sem barn á ferð með foreldrum mínum í sígildu sólarlandaferðirnar sem voru á þeim tíma er Ingólfur Guðbrandsson var stærstur í ferðamannabransanum á Íslandi.

Þá voru hvorki rólegheitin um borð né á flugvellinum. Ferðin hófst í hliðinu góða á vellinum þar sem allir pappírar voru stimplaðir, enda á umráðasvæði Ameríkana. Eftir atið við að komast í gegnum vegabréfaskoðunina hófst kapphlaup fullorðna fólksins að barnum, en þar beið bjórinn.
Sá forboðni drykkur sem allir vildu. Upphófst iðulega mikil kappdrykkja þar sem keppst var um að innbyrða sem mest af þessum unaðslega mjöð áður en gengið var um borð.
Það er af sem áður var að það mátti halda gott partí aftast í vélinni, en í dag er bannað að reykja um borð, eins fáránlegt og sumum þykir það nú. Flugveiki var nokkuð algeng í þessum sólarlandaferðum sem kannski skýrist af  gífurlegum reykingum aftast í vélinni.
Börn reykingamanna sem sátu aftast með foreldrum sínum skiptu lit og urðu áberandi grænleit.

Loksins, loksins við lendingu voru flugfreyjurnar úttaugaðar við að reyna að koma skemmtanaglöðum sísyngjandi gítarglamrandi sjómönnum frá borði og upp í rútur í átt að hótelunum.

Ég er enn full lotningar í garð flugfreyjanna sem komust lifandi frá þessum ferðum.

Íslendingar tóku Spán með trompi, sólbrenndir krakkar úttroðnir af ís og vel smurðir í sólkremi dunduðu sér á ströndinni á meðan foreldarnir könnuðu innihald sangríunar, sem átti víst að vera holl því það var svo mikið af ávöxtum í henni.

Uppistaðan í matnum var paddads fritas og una polio sem útleggst á hinu ástkæra ylhýra sem franskar kartöflur og grillaður kjúklingur. Íslendingar gerðu einnig kröfu um að Spánverjar tileinkuðu sér betri sósugerð og myndu læra að hræra saman í góða kokkteilsósu, því án hennar er matur ekki matur.

Það alskemmtilegasta voru þó hinar ævintýralegu grísaveislur. Þá var sólbrenndum og timbruðum ferðamönnum skutlað upp á asnabak, teymdir sem leið lá upp í fjöll og goróttur drykkur í keramíkflösku gekk á milli manna þar til að áfangastað var náð. Þar upphófstu heilmikil veisluhöld, heilgrillaður grís, flamengódans af bestu gerð og síkátir söngvarar sem börðu gítara, voru með sombrero hatta og sungu æææææ á spænsku.

Að veislunni lokinni voru sumir gesta bundir á bak sem fyrirbyggjandi aðgerð og liðinu stefnt aftur niður á hótel.
Æði. Mjög mikil menningarleg upplifun.

Þegar ég var barn þá var það toppurinn á tilverunni að komast heim með sem flesta kjóla, skaðbrunnin með fulla tösku af senjorítudúkkum og búin að læra að segja Olé!  Í dag er það að komast á HM og á McDonalds.

Gleðilegt ferðasumar.

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts