Lyst

LÆRDÓMUR: „Oft teljum við okkur trú um, sérstaklega eftir löng sambönd, að við vitum allt um makann og kunnum að kveikja á öllum hans tökkum. Ekki er samt endilega víst að svo sé.“

Klikkuð í kynlíf:

Allir vita að fólk hefur mismikla þörf fyrir kynlíf. Sú staðreynd hefur verið endalaus uppspretta alls konar brandara um vikulega parið, einu sinni í mánuði manninn og þann sem fær það bara einu sinni á ári. En hvernig svo sem þinni löngun er háttað er hún einkamál og fyllilega í lagi þar til þú tekur saman við einstakling sem vill meira eða minna en þú. Hin eilífa spurning er hvernig er hægt að sameina þetta tvennt án þess að öðrum hvorum aðilanum finnist yfir hann gengið.

 

Til að byrja með er ágætt að hafa í huga að kynlífssamband snýst ekki um þig og þínar þarfir eingöngu. Það þarf tvo til og um leið og þú hefur fengið aðra manneskju í leikinn með þér ber þér að virða hana og hennar mörk. Hið sama gildir auðvitað um félagann og komi í ljós að þið eruð á öndverðum meiði um margt er fyrsta skrefið að ræða málin. Í slíkum samræðum þýðir ekki að slá úr og í og segja: „Ef þú gerir þetta skal ég gera hitt,“ eða: „Ég held að ég myndi vilja meira í áttina að þessu eða hinu.“ Þú verður að setja fram skýrt og greinilega hvað þér finnst að og benda á leiðir sem þér finnst mögulegar til að leysa málin.

 

Það kann hins vegar að vera að ekkert lagist strax eða þið finnið ekki taktinn fyrr en eftir nokkrar tilraunir og það er allt í lagi. Hlustaðu líka á hinn aðilann. Oft teljum við okkur trú um, sérstaklega eftir löng sambönd, að við vitum allt um makann og kunnum að kveikja á öllum hans tökkum. Ekki er samt endilega víst að svo sé. Manneskjan þroskast og breytist, bæði líkamlega og andlega, á æviskeiði sínu og það sem hentaði fyrir nokkrum mánuðum er ekki endilega það allra besta í dag. Öll sambönd snúast að meira og minna leyti um samningaviðræður og málamiðlanir og um leið og báðir aðilar sætta sig við það og læra að njóta þess að gefa eftir til að fá í staðinn meira er björninn unninn og sambandið verður nánara og betra en nokkru sinni fyrr.

 

Rómantík er meira en rauðar rósir

Einn versti óvinur ástarsambanda nútímans er tímaskorturinn. Flestir hafa marga bolta á lofti og þurfa virkilega að hafa fyrir lífinu. Þreyta og áhyggjur eru þess vegna oft það eina sem fólk tekur með sér upp í rúm á kvöldin. Þá kemst ekki að nein spenna fyrir manneskjunni sem liggur við hliðina á þér eða löngun til að gera nokkurn skapaðan hlut. Þegar þannig stendur á ríður á að muna að góð ástarsambönd byggjast ekki eingöngu á kynlífi. Þau hverfast líka um ást, umhyggju, samlíðan og vináttu. Það er ekkert athugavert við að njóta samveru eða kynlífs sem byggir á þeim grunni frekar en á losta.

 

En jafnframt er vert að hugsa um, ef maki þinn er stöðugt þreyttur og illa fyrirkallaður, hvort hann beri hitann og þungann af heimilisrekstrinum, ekki þú. Veltu fyrir þér hvort þú getir gert eitthvað til að létta honum lífið og draga úr þreytunni. Reyndu líka að skapa rómantískar aðstæður. Margir karlmenn eiga erfitt með að tjá sig með orðum en gerðir geta verið mun dýrmætari ástarjátning en nokkuð annað. Sá sem er tilbúinn að leggja á sig erfiði fyrir þig eða taka af þér eitthvað sem þér finnst leiðinlegt er ekki síðri rómantíker en sá sem kemur heim með rauðar rósir. Horfðu eftir litlu hlutunum, því sem makinn gerir fyrir þig og gerðu eitthvað sætt á móti. Það er ótrúlegt hvað það getur verið áhrifaríkt.

 

Þekktu sjálfa/n þig og þínar þarfir. Sá sem ekki veit hvað hann vill hefur lítið að gefa öðrum og er alls ekki undir það búinn að taka á sig þær skuldbindingar sem ástarsambönd krefjast. Þörf okkar fyrir ást og umhyggju hefur áhrif á þörf okkar fyrir kynlíf. Margir eiga að baki erfiða reynslu sem getur staðið þeim fyrir þrifum í sambandi sem er mjög gott. Vantraust, ótti, minnimáttarkennd, óöryggi og vanlíðan hverfa ekki þótt fólk sé komið upp í rúm með einhverjum sem það er ástfangið af. Ef sambandið einkennist af togstreitu prófaðu þá að líta í eigin barm og skoða hvort þú hafir unnið nægilega vel úr gömlum særindum og hafir ekki tekið þau með þér inn í nýtt samband. Skoðaðu líka hvort þú notir kynlíf til að kaupa þér ofurlitla blíðu og athygli fremur en sem leið til að skapa nánd í sambandinu.

 

Væntir þú of mikils af kynlífinu? Ertu að bíða eftir einhverri stórkostlegri upplifun fremur en að njóta leiðar til að auka umhyggju, ást og virðingu milli þín og makans. Spurðu sjálfa/n þig hverjar þínir þarfir séu og hvað það er sem þú þráir mest. Mundu að engin önnur manneskja getur fært þér hamingjuna né heldur uppfyllt allar þínar þarfir. Stilltu því væntingum í hóf. En mundu að þótt þín löngun og þarfir séu aðrar en makans er ekki þar með sagt að annað hvort ykkar sé óeðlilegt á einhvern hátt. Þið eruð einfaldlega ólík. Það er óþarfi að hafa sektarkennd út af því eða líða illa yfir að geta ekki fallið í það mót sem maður telur að allir eigi að passa í.

 

Til að ástarsamband teljist gott verður báðum aðilum að líða vel. Í raun er það besti mælikvarðinn hvernig þér líður. Finnst þér þú vera fullnægð/ur? Líður þér vel í návist þess sem þú elskar? Getur þú rætt vanlíðan þína, óöruggi eða óánægju án þess að það skapi leiðindi? Spurðu sjálfa/n þig hvort þú sért of þreytt/ur fyrir kynlíf eða bara þreytt/ur á manneskjunni sem liggur við hliðina á þér. Þegar þú hefur fengið svar við þessum spurningum ættir þú að vita hvort þú ert tilbúin/n til að leggja á þig þá vinnu sem fylgir því að vera í sambandi við þessa manneskju og njóta lífsins með henni.

 

 

Tryggðu þér tíma fyrir kynlíf 

  • Margir eru hræddir við að börnin gangi inn á þá eða trufli þegar leikar standa sem hæst. Prófið að finna eitthvað skemmtilegt fyrir börnin að gera og segið þeim einfaldlega að nú þurfið þið frið og þau megi ekki trufla. Læsið síðan að ykkur.
  • Setjið ykkur ákveðna og fasta tíma þar sem sambandið gengur fyrir. Margir taka eitt kvöld í mánuði frá og fara á stefnumót með makanum. Það er góð leið til að viðhalda rómantíkinni en það er ekkert athugavert við að ákveða dag, kvöld eða stund á hverjum degi eða í hverri viku þar sem kynlífið er í forgrunni. Sumum finnst það draga úr spennunni og kynlífið einkennist af stjórn fremur en að það spretti af löngun. En þannig er það bara ef fólk velur að eignast og reka fjölskyldu.
  • Kynlíf bætir sambönd og flestir sem hafa átt í langtímasamböndum vita að ef það er ekki stundað lengi skapast togstreita og vanlíðan í sambandinu. Það er gott að hafa alltaf í huga að magn er ekki sama og gæði. Þess vegna er gott að leita leiða til að tryggja að báðir aðilar fái það sem þeir vilja út úr kynlífinu. Skoðaðu þarfir makans með opnum huga og gerðu þér grein fyrir að hans þarfir eru ekki ómerkilegri en þínar. Reyndu síðan að koma til móts við þær. Ekki ákveða fyrirfram að eitthvað sé rangt eða rétt, of mikið eða of lítið. Gerðu það sem þú getur til að skapa notalegt andrúmsloft trausts og hlýju og hitt kemur yfirleitt af sjálfu sér.

 

Að koma honum/henni í stuð

  • Stundum væri óskandi að menn og konur kæmu með on/off takka sem hægt væri að þrýsta á eftir þörfum. Svo er ekki. Þess vegna kallar það á hugkvæmni og útsjónarsemi að finna leiðir til að skapa rétta andrúmsloftið og tæla makann. „Hér kem ég hvort sem þú ert tilbúin/n eða ekki.“ er skelfilega lítið spennandi forleikur. Finndu leiðir til að efla með þér hvötina að daðra, tæla og laða maka þinn að þér. Það er á þína ábyrgð að kveikja neistann rétt eins og þú ætlast til að makinn leggi eitthvað á sig til að kveikja glóðina innra með þér.

 

Er eitthvað að mér?

Ef þú finnur fyrir lítilli kynlöngun og ástandið er viðvarandi er vert að skoða hvort eitthvað líkamlegt geti verið að. Leitaðu til læknis og ræddu ástandið, það er hugsanlegt að hormónatruflanir hafi áhrif á líðan þína. Skoðaðu líka mataræðið og daglegar venjur þínar því það er hugsanlegt að þig skorti einfaldlega næringarefni og þar af leiðandi orku. Mikil almenn þreyta sem ekki verður skýrð af vinnuálagi eða áhyggjum getur átt rætur að rekja til slæmra matarvenja.

 

 

 

Related Posts