Hvar varst þú þegar þú fréttir að Davíð Oddsson hefði ákveðið að bjóða sig fram til forseta Íslands?

Ég var staddur í Istore í Kringlunni og var að skoða nýjustu gerðina af iPad air pro og kíkti inn á mbl.is þegar þessi ótrúlega frétt birtist á skjánum. Ég upplifði tilkynninguna sem sögulegt augnablik sem líður mér líklega seint úr minni. Ég man hvar ég var þegar Andy Warhol dó og þoturnar flugu á tvíburaturnana í New York og á einhvern skringilegan hátt hafði þessi frétt svipuð áhrif á mig. Hún er ekki bara tragísk, heldur óneitanlega líka með kómísku tvisti og dassi af súrrealisma. Nánast of súr til að geta verið sönn.

Fortíðardraugurinn Davíð er kominn aftur og verður greinilega seint kvaddur niður. Hann birtist mér þarna inni í framtíðinni í nýjasta og flottasta tækinu frá Apple og gerði sig breiðan eins og ekkert væri sjálfsagðara. Tíminn fer í hringi og þetta var eins og sena úr myndinni Aftur til framtíðar, nema rangsælis, eða Fram til fortíðar. Eiríkur Jónsson var vissulega fyrir löngu búinn að segja að Davíð ætlaði fram en engu að síður hljómaði það of klikkað til að geta verið satt.

Við höfðum verið að ræða um George Orwell og framtíðarsýn hans í bókinni 1984 en ótrúlega margt sem þar stendur er orðinn veruleiki dagsins í dag. Við vitum að Stóri bróðir fylgist með okkur í gegnum GSM-símana, kreditkortin, samfélagsmiðlana og allar eftirlitsmyndavélarnar en erum sinnulaus um það og flestum virðist slétt sama. Aðalpersónan í 1984 vann í sannleiksráðuneytinu við að fara yfir fréttir í gömlum blöðum og samhæfa þær flokkslínunni. Besti vinur aðal sýndi vel að hann er fullfær um slík vinnubrögð þegar hann skrifaði og staðfærði tveggja opnu grein um ómæld afrek stjórnar foringjans í Moggann nokkrum dögum áður en ritstjórinn tilkynnti framboðið.

Nú vill Davíð sjálfur taka sér pennann í hönd og rita lokaþáttinn í sögu sinni sem stjórnmálamanns sem var öðrum glæsilegri framan af. Það verður spennandi að sjá og heyra hvernig sú saga verður skrifuð en það kæmi á óvart verði hún ekki lyginni líkust. You ain´t seen nothing yet, sagði einhver.

Loftur Atli Eiríksson

 

Related Posts