Bjórinn er kryddaður með reyktum hvalaeistum:

Töluverð umræða hefur orðið um Hvalur 2, hinn nýja hvalabjór frá Steðja, í erlendum fjölmiðlum. Bjórinn er sem kunnt er kryddaður með reyktum hvalaeistum sem leiðir til þess að í sumum miðlum er frásögnin af honum flokkuð sem furðufrétt.

Þannig segir m.a. á vefsíðu CBC útvarpsstöðvarinnar í Kanada að ef notkun á hvalaeistum sé ekki viðbjóður í sjálfu sér er verkun þeirra það. Notast er við gamla íslenska aðferð og eistun reykt með sauðataði. Það gefur bjórnum „flókið reykbragð“ eins og CBC vitnar til af heimasíðu Steðja.

Fréttastofan Orange í Bretlandi setur fréttina um hvalabjórinn í furðufréttadálk sinn og þar er einnig fjallað um fyrrgreinda gamaldags verkun á eistunum.

Bjórinn Hvalur 2 kemur á markað í næstu viku og svipað og í fyrra, þegar fyrsti hvalabjórinn kom á markað, eru hvalafriðunarsinnar erlendis æfir af reiði vegna hans. Þannig er haft eftir einum þeirra, Vanessu Willimas-Grey í blaðinu Guardian að með honum sé framleiðandinn að sýna fingurinn öllum sem elska og virða hvali.

Related Posts