Beautiful-Smile-Girl-picspaper-com-600x337

GLÆSILEG: Fallegt bros gerir gæfumuninn

Vilt þú hafa góð áhrif á manneskjuna sem þú hrífst af eða bæta samband þitt við makann? Þá væri snjallt að sleppa öllu yfirlæti og sýna meiri hógværð. Sýnt hefur verið fram á að bæði kynin laðast mikið að hógværum manneskjum þegar kemur að vali á framtíðarmaka.

Hógværð er eiginleiki sem vert er að tileinka sér. Flestir kjósa maka sem kemur vel fram við aðra, hefur ekki stöðuga þörf fyrir athygli og sér bæði styrk þeirra og veikleika. Ef þú hefur einhvern tíma fallið fyrir hrokafullum monthana eða sjálfhverfri prímadonnu er ekki líklegt að sambandið hafi haldið. Það er sennilega ástæðan fyrir því að mörg okkar kjósa frekar rómantískar stundir með fólki sem er ljúft, hógvært og sýnir okkur virðingu.

Sigur hógværðarinnar

Gerð var rannsókn í þremur hlutum til að finna út hvort hógværð væri æskilegur eiginleiki í ástarsamböndum. Þátttakendur í fyrsta hluta byrjuðu á því að skoða tilbúnar persónulýsingar á stefnumótasíðu þar sem „fólkið“ sagðist vera opið, þægilegt, mannblendið, samviskusamt og skyldurækið og laust við allar sálarflækjur. Sumar gervipersónurnar bættu því við að þær væru hógværar, aðrar ekki. Þrátt fyrir hina kostina sem viðkomandi bjó yfir varð sú hógværa mun oftar fyrir valinu en hin.

Í öðrum hluta rannsóknarinnar voru 133 þátttakendur látnir lesa tvenns konar mannlýsingar. Aðrar voru látnar hljóma svolítið hrokafullar en hinar voru mun hógværari. Hógværu lýsingarnar sigruðu aftur hjá báðum kynjum.
Í síðasta hluta rannsóknarinnar kom fram að 416 manneskjur, giftar eða í sambandi, voru líklegri til að fyrirgefa maka sínum ef þær upplifðu hann hógværan.

Af þessum niðurstöðum má álykta að hógværð sé eiginleiki sem höfðar sterkt til annarra og sé þess virði að tileinka sér.

Vertu þú sjálf/ur

Þegar þú kynnist spennandi manneskju sem höfðar til þín virkar best að vera þú sjálf/ur. Viðkomandi áttar sig fljótt á kostum þínum svo þú þarft ekki, kannski í stressi þínu við að koma vel út, að monta þig af þeim. Ef þú ert beðin/n um að lýsa sjálfri/sjálfum þér sakar ekki að láta veikleikana fylgja með. Dæmi: „Ég er lífsglöð manneskja en get verið svolítið morgunfúl þangað til ég hef fengið mér kaffi …“
Þeir sem tala einungis um sjálfa sig gefa ekki góða mynd af sér við fyrstu kynni. Sýndu hinum aðilanum áhuga, spurðu hann spurninga í stað þess að láta athyglina vera allan tímann á þér.

Hrokafullir einstaklingar geta vissulega verið einstaklega sjarmerandi. Mundu bara að þeir sem gera ekki annað en að monta sig af afrekum sínum eru þeir sem kenna öðrum um hlutina og viðurkenna ekki eigin mistök. Það er einstaklega erfitt að byggja upp gott, innilegt og traust samband við einhvern sem einblínir stöðugt á sjálfan sig.

Related Posts