Orka næstu tólf ára:

Í febrúarmánuði hófst ár Geitarinnar í kínversku stjörnuspekinni og hvert merki fékk sinn spádóm í Vikunni. Hér má aftur á móti lesa um orkuna sem verður til staðar næstu tólf árin. Hvert kínverskt ár hefur sína sérstöku orku sem hefur áhrif á ALLA, sama í hvaða stjörnumerki þeir eru.

2015 – ár Geitarinnar

Ró hvílir yfir þessu ári og fjölskyldan er í aðalhlutverki. Þetta er ár sameiningar og samninga. Happasælla er að bíða í smátíma með að gera nýjar hugmyndir að veruleika þar til þær eru fullmótaðar og ár Apans gengið í garð.

2016 – ár Apans

Ófyrirsjáanleiki ríkir – búðu þig undir breyttar áætlanir. Ef þú bregst hratt við tækifærum getur þú notfært þér þau. Mikið hugmyndaríki og góð tjáskipti einkenna ár Apans.

2017 – ár Hanans

Ár Hanans er ár uppgjöra þar sem gott er að leyna ekki tilfinningum sínum, heldur losa sig jafnóðum við alla neikvæðni og leyfa innibyrgðri reiði ekki að grassera. Gættu þess þó að sýna ástvinum þínum fulla nærgætni þegar þú tjáir þig við þá um það sem þér liggur á hjarta.

2018 – ár Hundsins

Öryggi mun skipta miklu máli á ári Hundsins. Góð og verðug málefni verða sett á oddinn og ekki er ólíklegt að sjálfboðaliðastörf höfði óvenjumikið til þín. Þetta ár er samt mjög gott ár til að gifta sig og stofna fjölskyldu.

2019 – ár Svínsins

Bjartsýni og gleði einkennir þetta ár. Gott er að nota það til að ljúka við það sem hefur setið á hakanum og safnað ryki, á þessu síðasta ári kínverska hringsins. Allt sem tengist fjölskyldumálum mun ganga einstaklega vel.

2020 – ár Rottunnar

Frábært ár til að hefja eitthvað nýtt. Þú nýtur vissulega heppni á margan hátt en verður að leggja eitthvað á þig, annars lætur árangurinn á sér standa. Gott skipulag og varkárni er besta veganestið á leiðinni til velgengni.

2021 – ár Uxans

Nokkur íhaldssemi er táknræn fyrir ár Uxans. Þú munt uppskera eins og þú hefur sáð eftir alla vinnuna á síðasta ári. Þetta er virkilega gott ár til að taka ákvarðanir og ná samningum við aðra. Vertu samt varkár í þeim áætlunum sem þú ætlar að gera.

2022 – ár Tígursins

Sitt af hverju óvænt getur komið upp á ári Tígursins og jafnvel haft tímabundin neikvæð áhrif á líf þitt. Þeir áhættusæknu geta náð góðum árangri þetta ár en reyndu eftir bestu getu að hafa allt þitt á tæru og uppi á yfirborðinu, að reyna að halda hlutum leyndum getur haft slæmar afleiðingar.

 2023 – ár Hérans

Þetta ár verður rólegt og gott að nota það til að hlaða sig orku fyrir það næsta. Nú er ekki rétti tíminn til að taka áhættu í viðskiptum eða samskiptum við aðra, notaðu árið frekar til samninga og sáttagjörða. Allt sem viðkemur fjölskyldunni verður í aðalhlutverki hjá þér.

2024 – ár Drekans

Framsækni er málið á ári Drekans og öll verslun og viðskipti ganga vel. Þó þarftu að vera á varðbergi gagnvart óvæntum atburðum sem geta breytt áætlunum en þér er samt óhætt að taka smááhættu ef gott tækifæri kemur upp í hendurnar á þér.

2025 – ár Snáksins

Friðsæld og frjósemi liggur iðulega í loftinu á ári Snáksins. Þó þarf að vera á varðbergi gagnvart svikulu og fölsku fólki, jafnvel þarftu að halda mikilvægum fyrirætlunum þínum leyndum. Annars verða samskipti við aðra á góðu nótunum og þú þarft ekki að hafa áhyggjur af fjármálunum.

2026 – ár Hestsins

Ár Hestsins er ár mikillar orku sem tengist meðal annars peningum sterkt. Þú getur bæði grætt og tapað fé með hvatvísi svo farðu varlega … eða ekki. Árið er bæði gott og slæmt fyrir ástina, hjónabönd verða til eða upp úr þeim slitnar.

Related Posts