Ásta Hrafnhildur

FLOTT: Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Á köldum eftirmiðdegi í desember laumast ég eins og þjófur að nóttu út í bíl og bruna sem leið liggur í iðnaðarhverfi í Kópavogi. Gæti þess vel að aka á löglegum hraða til að tryggja að ég verði ekki stöðvuð af laganna vörðum. Er nefnilega ekki viss um að þeir taki mig trúanlega þegar ég útskýri fyrir þeim að ég sé ekki á leiðinni í áheyrnaprufu á Goldfinger heldur að fara í danstíma með húsmæðrum á virðulegum aldri. Ég átta mig auðvitað á því, klædd í netasokkabuxur og korsilett með eldrauðan varalit, að ég virka ekki mjög sannfærandi sem hugguleg úthverfamóðir heldur líkist frekar útvinnandi konu í Amsterdam.

En raunin er sú að ég var á leiðinni í danstíma með virðulegum húsmæðrum á flottum aldri. Samankomnar, klæddar sem fegurstu dragdrottningar á tólf sentímetra háum hælum að æfa burlesqe. Þann forboðna og djarfa sýningardans sem lengi vel var kenndur við mylluna rauðu og önnur hús af sama tagi.
Hér gleymist hávaði hversdagsins og við erum ekki lengur Guðrún, Sigga og Jóna, heldur, Kitty, Dolly og Sandy, ómótsæðilegar sýningastúlkur. Demantar eru bestir kyrjar Marilyn og við svífum í takt eins og greifynjur i djörfum dansi þvert yfir dansgólfið. „Þið eruð allar gordjöss“, hrópar kennarinn og hvetur okkur til að vera meira sexí. Hér eru ekki hrukkur, hér er ekki appelsínuhúð, hér skiptir aldur og þyngd ekki máli.

Það hefur reynst nokkuð snúið að útskýra þetta uppátæki húsmóðurinnar fyrir vinum og vandamönnum „komin á þennan aldur, að striplast um á nærfötum, og kalla það dans“ – er sagt á innsoginu. Vissulega hafa sumir næstum kafnað af hneykslun en við því er ekkert að gera. Áhugamál fólks eru mismunandi, það er til fólk sem spilar golf!

Að tíma loknum skakklappast ég á illa söltuðu bílastæðinu, hríðskelf og fálma eftir bíllyklunum, sem eru að auðvitað neðst í töskunni, klöngrast inn í bíl. Ek sem leið liggur í raunheima og staldra við í Bónus, klædd skósíðri peysu og kuldastígvélum, gæti þess vel að ekki glitti í blúndu eða netasokka á meðan ég hendi fiskibollum og kartöflum í innkaupakerruna.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

Related Posts