Elínborg Halldórsdóttir (54) er lagvís og listfengin:

Elínborg Halldórsdóttir er landsmönnum best kunn sem söngkona hljómsveitarinnar Q4U sem fyrst kom fram á sjónarsviðið á níunda áratug síðustu aldar. Q4U er enn að spila og ný plata á leiðinni en tónlistin er ekki eini vettvangurinn þar sem Ellý hefur fundið hæfileikum sínum farveg, hún er líka feiknagóður listmálari og hélt nýlega sýningu í hesthúsinu í Heynesi.

„Ég hef málað alla tíð, alveg frá því ég var lítil stelpa,“ segir Ellý. „Kennarar mínir sáu að ég hafði hæfileika og hvöttu mig áfram og myndlistin var eitthvað sem ég var best í. Myndlistin var mitt fag.“

Ellý hefur haldið sýningar um allt land, í Reykjavík, Eden í Hveragerði og á Stokkseyri svo eitthvað sé nefnt. Nýjasta sýningin var hluti af Hvalfjarðardögum og hélt Ellý hana í hesthúsinu í Heynesi í Hvalfjarðarsveit. Fjöldi fólks mætti og naut verka Ellýjar sem eru af ýmsum toga.

Ellý hyggur á sýningu í Reykjavík en segist að sama skapi ekki nógu dugleg að koma sér á framfæri með því að finna stað fyrir sýninguna. „Helst myndi ég vilja finna iðnaðarhúsnæði sem er hálfhrátt og gera það að mínu,“ segir Ellý. „Ég vil leika mér með sýninguna og blanda henni saman við tónlist. Ég vil hafa svolítið meira um að vera, ekki bara hefðbundna sýningu þar sem allir standa penir, prúðir og kurteisir, mér finnst voða gaman að hafa „action“,“ segir Ellý.

Það er líka nóg að gera í tónlistinni, Q4U spilaði á tónlistarhátíðinni Norðanpaunk á Laugarbakka um verslunarmannahelgina og ný plata er á leiðinni. „Við erum búin að taka plötuna upp og það er búið að gera „cover-ið“ og allt,“ segir Ellý. Útgáfudagur er þó ekki kominn.

14352497_10154237692629584_1394964495837317100_o

GERIR ALLT SJÁLF: Ellý er sjálfstæð kona og vön að bjarga sér sjálf og gerir allt heima fyrir nema að pípa. „Ég á bora, sagir og allt sem til þarf og er voða montin með mig þegar einhver kemur og vill hjálpa mér. Það er gaman að geta bjargað sér sjálf.“ Hún þáði þó hjálp við að hengja upp myndirnar á sýningunni í Heynesi.

Listagenin ganga í erfðir
Ellý á fjórar dætur og sú elsta, Erna, á tvo syni. Systurnar hafa allar erft listagen móður sinnar og nefnir Ellý sem dæmi að Alexandra syngi og að Erna hafi verið á listabraut í fjölbraut áður en hún ákvað að klára hjúkrunarfræði en núna leggur hún stund á læknisfræði í Slóvakíu.

„Barnabörnin mín eiga eftir að verða listamenn, Jón Ingi, sá eldri, er bæði fær að teikna og spilar á gítar og sá yngri, Gunnþór, verður ábyggilega listamaður líka,“ segir Ellý. Faðir þeirra, Óli Rúnar Jónsson, er tónlistarmaður og faðir Ernu er tónlistarmaðurinn Gunnþór Sigurðsson, bassaleikari Q4U. Systir hans er söngkonan Þuríður Sigurðardóttir, sem er einnig fær listmálari og Erró er frændi þeirra. Það er því ljóst að nóg er af listrænum hæfileikum í ætt ömmustrákanna.

14372295_10154237692394584_4202901570078197145_o

DÆTURNAR VORU MEÐ Í MYNDUM: Dætur Ellýjar komust ekki á sýninguna að þessu sinni en þær voru þó með í málverkunum. Þessi mynd er af Halldóru.

14311300_10154237692964584_3436171356049527614_o

BJÚTÍFUL BALLERÍNUR: „Aftan á hverri mynd er sagan um myndina.“

14324680_10154237692484584_8930114154059937555_o

ER MEÐ GRÆNA FINGUR: „Ég er hrifin af náttúrunni, ég er náttúrufrík.“ Ellý hefur verið búsett á Akranesi síðan 2011 og eignaðist þá í fyrsta sinn á ævinni garð. „Í gamla daga í pönkinu var ég að stela afleggjurum þegar ég var í partíi í blokkunum, hætti því þegar ég dró heim með mér risastórt plastblóm.“

14352605_10154237692824584_3959567488273378228_o

LISTRÆN LJÓS: Ellý gerði líka þessa fallegu kertastjaka sem létu ljós sitt skína á listasýningunni.

14207665_10154237692419584_7741681304255656691_o

14305402_10154237692919584_1751151229365935078_o

14324676_10154237692724584_8531867022129350373_o

Séð og Heyrt skoðar fallega myndlist.

Related Posts