Salka Sól Eyfeld (26) slær í gegn:
Salka Sól Eyfeld er orðin heimilisvinur allra Íslendinga eftir að hún fór að kynna Eurovision í Ríkissjónvarpinu af þvílíkum krafti að þjóðin dansar með. Hitt vita færri að forfeður hennar framleiddu allar stúdentshúfur á Íslandi og gera enn.

SH-1422-30-05432 SH-1422-30-05432

HEIMILISVINUR: Frammistaða Sölku Sólar í Eurovision-kynningum Ríkissjónvarpsins hefur gert hana að heimilisvini allra landsmanna.

„Ég veit ekki alveg hvernig ég tengist stúdentshúfuframleiðendunum en ég held að synir systur ömmu minnar hafi byrjað að framleiða þær,“ segir Salka Sól og viðurkennir að hún sé ekki mjög sterk í ættfræði Eyfeldanna en viti þó að pabbi hennar er frá Dalvík og mamma úr Hafnarfirði.

Verslunin P. Eyfeld, sem sérhæfir sig í stúdentshúfum, var til húsa á Laugaveginum en nú er framleiðslan flutt í Kópavog þar sem saumastofa framleiðir húfurnar í samkeppni við aðrar frá Kína sem ná þó aldrei gömlum gæðum sem einkennt hafa húfurnar frá P. Eyfeld.

Það er frændi Sölku Sólar, Pétur Eyfeld, sem stýrir stúdentshúfuframleiðslunni í Kópavogi núna:

„Ég held að amma Sölku Sólar hafi verið systir pabba míns,“ segir Pétur Eyfeld og bætir við að samskiptin innan fjölskyldunnar séu lítil þar sem hluti hennar hafi flutt norður á Akureyri en hin orðið eftir hér.

eyfeld

FRÆNDINN: Pétur Eyfeld er á kafi í stúdentshúfum.

„Ég veit hins vegar að við erum nátengd Engeyjarættinni því þegar verið var að skrifa bók um þá miklu ætt höfðum við lítinn frið fyrir skrásetjurum sem vissu af þessum tengslum.“

Pétur Eyfeld telur að Salka Sól sé ekki stúdent því aldrei hafi hún fengið húfu frá frændfólki sínu í fyrirtækinu:

„Ég myndi muna eftir því og varla hefði Eyfeldstúlka fengið sér stúdentshúfu frá Kína. Því trúi ég bara ekki,“ segir Pétur Eyfeld, stoltur af frænku sinni sem svo skemmtilega hefur slegið í gegn með hæfileikum sínum, bæði í söng og leik.

Related Posts