Helga Gabríela (23) er einn af bloggurunum á KRÓM:

 

Helga Gabríela hefur vakið mikla athygli fyrir bloggið sitt þar sem hún fjallar um holla og næringarríka matargerð. Helga Gabríela er nú orðin einn af bloggurunum sem blogga á heimasíðunni KRÓM.

Heilsan í fyrirrúmi! „Síðan ég man eftir mér hef ég haft mikinn áhuga á matargerð,“ segir Helga Gabríela og heldur áfram. „Þetta áhugamál hefur þróast með árunum og í dag hef ég brennandi áhuga á öllu sem tengist heilsu og mat. Mér finnst mjög áhugavert að huga að heildinni, það er að næra líkama, huga og sál.“ Helga Gabríela opnaði veitingastaðinn Local, ásamt fleirum, í október síðastliðnum í Borgartúni 25 en staðurinn hefur heldur betur slegið í gegn. „Við búum sjálf til salatið eftir óskum viðskiptavinarins, ásamt því að selja okkar eigin salöt, samlokur, ferska djúsa og margt fleira hollt og gott. Þar fæ ég svo sannarlega útrás fyrir ástríðu mína sem er að útbúa mat og allt sem því tengist.“ Helga segir að hreyfing skipti sig einnig miklu máli og vill hún fyrst og fremst hafa gaman af líkamsræktinni sem hún stundar. „Ég hef helst verið að stunda Hot Yoga ásamt lyftingum. Það skiptir mig miklu máli að vera í góðu formi jafnt líkamlega sem andlega.“

Helga segist hafa verið ung þegar hún byrjaði að helga sig heilsusamlegum lífsstíl og man hún ekki eftir sér öðruvísi en að vera með hollan mat á diskinum sínum. „Þar sem þetta er áhugamál þá hefur þetta þróast í að verða enn hollara, ég er byrjuð að borða meira af ávöxtum og grænmeti og minnkað eldaðan mat. Einnig hef ég mikinn áhuga á snyrtivörum og elska að búa til mína eigin skrúbba og maska.“ Helga Gabríela hefur nýlega gengið til liðs við bloggarateymið sem myndar síðuna KRÓM, eða krom.is. „Ég byrjaði að blogga því mig langaði til að deila þekkingu minni og því sem ég er að uppgötva og vonandi veita þar með öðrum innblástur. Hin yndislega Steinunn Edda hafði síðan samband við mig og fékk mig til liðs við bloggarana á KRÓM. Ég sagði strax já, enda er þar komin síða sem sameinar marga skemmtilega og fjölbreytta bloggara, þannig að fólk þarf ekki endalaust að vera flakka á milli síðna.“

Uppáhaldspönnukökurnar mínar:
Þessar baka ég alveg nokkuð oft, svo bragðgóðar og hollar. Mjög sniðugt að útbúa tvöfalda uppskrift og frysta helminginn. Ekkert er betra en að grípa í tilbúnar pönnukökur á morgnana úr frystinum og skella í brauðristina.
1 msk. chia-fræ (sem búið er að leggja í bleyti í 10 mín.)
1 egg + 1 eggjahvíta
1 skúbba af prótíni, um 30 g (ég notaði Whey frá Now Iceland)
1 stappaður banani
1/2 bolli hnetumjólk/vatn
1 tsk. matarsódi
1/2 tsk. kanill, kardimommur eða nutmeg
1-2 tsk. léttjógúrt
1 msk. kakó
1-2 tsk. sæta, ekki nauðsynlegt (ég notaði lucuma-duft og nokkra dropa af Now Iceland Stevia)
Allt hrært vel saman og bakað á heitri pönnu – gott að setja kókosolíu á pönnuna áður, ég nota samt alltaf vegetable cooking spray. Það er æðislegt að toppa pönnsurnar með hindberjajógúrt og kókoskarmeluðum bönunum, ásamt hempfræjum.
Karamellubananar: Bræðið kókospálmasykur á pönnu og léttbrúnið bananasneiðarnar.
Uppskriftin gefur um fimm pönnukökur.

Tilvalið að skella í þessar um helgina. Njótið!

Related Posts