anna2-222x300Eftir mikið annríki síðustu vikur ákvað ég að halda norður til Siglufjarðar þar sem móðurfjölskyldan mín er búsett. Þar hef ég getað slappað af í gegnum tíðina og náð að kúpla mig frá stressinu og kröfunum sem fylgja búsetu minni í borg óttans.

Ég lenti á flugvellinum og furðugóð lending flugmannsins vakti athygli mína. Ef það væri enn þá klappað við lendingar þá hefði þessi uppskorið einstaklega hávært klapp. Ég réð þó við mig og brosti bara til samferðamanna minna sem greinilega þurftu einnig að hafa sig alla við til að klappa ekki.

Ég steig út úr vélinni og þar var móðir mín komin að sækja mig á flugvöllinn, ásamt systkinum mínum. Ég var ekki fyrr komin af flugvellinum en móðir mín las upp fyrir mig dagskrá helgarinnar. Ræðan var jafnlöng og raðir fyrir utan skemmtistaði miðbæjarins þessa Airwaves-helgi.

Ég sá fljótt að afslöppunin sem ég hafði hlakkað til átti ekki eftir að verða jafnafslappandi og ég hafði vonast eftir.

Þegar ég var nýbúin að nudda stírurnar úr augunum á föstudagsmorgninum vakti mig skonsuilmur – það var fremur auðvelt að vakna. Dagurinn byrjaði sem og dagskráin. Menningarviðburðir og bakarísferðir voru furðulýjandi en samt upplífgandi á sama tíma. Dagurinn endaði síðan á stórskemmtilegum tónleikum þar sem amma drakk hálfan bjór en ég og mamma nokkra til viðbótar.

Laugardagurinn var með svipuðu móti en endaði ekki á tónleikum, heldur heljarinnar sýningu hjá leikfélagi bæjarins. Leikhúsið var með fullan kæli af Tuborg-jólabjórnum sem rann furðuvel niður.

Daginn eftir hélt móðir mín uppteknum hætti og fylgdi fast eftir dagskránni sem hafði verið vandlega skipulögð.

Sunnudagurinn var undirlagður af tattúásetningu en við mæðgurnar höfðum lengi ætlað að fá okkur eins tattú, þetta var mitt fyrsta en móðir mín hafði fengið sér nokkur.

Ég settist í stólinn og mamma stóð stolt og spennt við hliðina á mér. Drengurinn sem hafði fengið það verkefni að setja á mig mitt fyrsta tattú virtist býsna afslappaður og ég varð stressaðri fyrir vikið. Vær rokktónlist dundi í eyrum mér meðan ég fann nálina stingast í gegnum holdið. Ég beit á jaxlinn eins og sannri stórri stelpu sæmir. Áður en ég vissi af var ég komin með fallega fjöður á innanverða löngutöng. Ég og mamma bárum saman putta okkar og vorum yfir okkur ánægðar með húðflúrið sem rólegi en hæfileikaríki listamaðurinn hafði gert.

Ég lenti aftur á Reykjavíkurflugvelli með ekki eins góðri lendingu og seinast, húðflúruð og alveg jafnþreytt og þegar ég fór til Siglufjarðar.

P.S. Fjöður stendur fyrir von, jafnvægi og heppni.

 

Anna Gréta Oddsdóttir

Related Posts