Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamaður á RÚV, sendi nýlega frá sér sína fyrstu skáldsögu, Eyland. Hún hefur fengið feikifínar viðtökur og ljóst er að lesendur munu bíða spenntir eftir fleiri bókum frá henni. Sigríður svarar spurningum vikunnar að þessu sinni.

43. tbl 2016, Ásta Garðarsdóttir, Séð & Heyrt, Sigríður Hagalín Björnsdóttir, Spurt og Svarað, Heiðdís G. Gunnarsdóttir, SH1611167467

MÉR FINNST GAMAN AÐ … flestu. Mest þó að lesa og fara á skíði. Það hefur ekkert breyst síðan ég var sex ára.

SÍÐASTA KVÖLDMÁLTÍÐIN? Ég held að það væri fínt að fara með spaghetti bolognese inn í eilífðina.

BRENND EÐA GRAFIN? Brennd. Nema einhver finni einhverja hugvitsamlega aðferð til að breyta mér í tré.

HVAÐ FÆRÐU ÞÉR Á PYLSUNA? Allt!

FACEBOOK EÐA TWITTER? Facebook. Twitterinn er of hortugur fyrir mig.

HVAR LÆTURÐU KLIPPA ÞIG?  Hjá Berglindi minni á Scala.

HVAÐ GERIRÐU MILLI 5 OG 7 Á DAGINN? Skrifa fréttir. Laga innganga og raða fréttum í fréttatímann.

HVAÐ ERTU MEÐ Í VINSTRI VASANUM?  Hárnálar og hundapoka.

BJÓR EÐA HVÍTVÍN?  Bjór. Maðurinn minn er með brugghús í bílskúrnum.

UPPÁHALDSÚTVARPSMAÐUR? Broddi minn.

HVER STJÓRNAR SJÓNVARPSFJARSTÝRINGUNNI Á HEIMILINU? Hvaða sjónvarpsfjarstýringu? Við horfum bara á RÚV.

HVERNIG VAR FYRSTI KOSSINN? Ekki sérlega eftirminnilegur.

HVER VÆRI TITILL ÆVISÖGU ÞINNAR?  Á villigötum: konan sem þekkti ekki muninn á hægri og vinstri.

HVER ER DRAUMABÍLLINN? BMW i3-rafmagnsbíll.

FYRSTA STARFIÐ? Sumarstarf við símsvörun á Reiknistofu bankanna þegar ég var 15 ára. Það hringdu í alvöru svona þrír á dag.

FLOTTASTA KIRKJA Á ÍSLANDI ER …Mesta pönkið er í Laugarneskirkju.

LANDSPÍTALI VIÐ HRINGBRAUT? Engin skoðun. Hann er þar að minnsta kosti núna.

FALLEGASTI STAÐUR Á LANDINU? Básar. Og Vestfirðir. Línhagi í Skorradal. Og garðholan mín.

HVAÐA RÉTT ERTU BEST Í AÐ ELDA? Mér finnst gaman að gera bökur. Og elda flókinn og frekar gamaldags mat.

HVAÐA OFURKRAFT VÆRIR ÞÚ TIL Í AÐ VERA MEÐ? Ég væri alveg til í að eiga nokkur klón af sjálfri mér svo ég kæmist yfir að gera meira.

GIST Í FANGAKLEFA? Ekki enn.

STURTA EÐA BAÐ? Bað, þegar tími gefst til.

HVAÐA LEYNDA HÆFILEIKA HEFUR ÞÚ? Ég kann nokkur grip á ukulele.

HVAÐ ER Í MATINN Á JÓLUNUM?  Sænsk jólaskinka.

HVAÐA SÖGU SEGJA FORELDRAR ÞÍNIR ENDURTEKIÐ AF ÞÉR? Sögur af skjótum málþroska, athyglisbresti og strokgirni minni í bernsku.

HVAÐA BÓK EÐA KVIKMYND FÉKK ÞIG SÍÐAST TIL AÐ TÁRAST? Ég grét síðast yfir Öri eftir Auði Övu. Hún skrifar svo fallega um karlmenn.

ERTU MEÐ EINHVERJA FÓBÍU?   Ég er haldin abiblio-fóbíu, óttanum við að verða uppiskroppa með lesefni.

HVER ER BESTA ÁKVÖRÐUN SEM ÞÚ HEFUR TEKIÐ?  Að kyssa Gumma.

FURÐULEGASTI MATUR SEM ÞÚ HEFUR BORÐAÐ? Soðið beikon með steinseljusósu. Danska eldhúsið á marga góða spretti en þetta er ekki einn þeirra.

HVAÐ ER NEYÐARLEGASTA ATVIK SEM ÞÚ HEFUR LENT Í?  Ég er hræðilega ómannglögg og reyni stundum að þekkja fólk á fötunum. Þegar ég var um tvítugt, í fyrsta fréttamannsstarfi mínu, var ég send á ráðstefnu að taka viðtal við Johan Jörgen Holst, utanríkisráðherra Noregs. Hann varð heimsfrægur fyrir að takast næstum að koma á friði milli Ísraelsmanna og Palestínumanna. Ég sá hann í pontu og hann var með rautt bindi. Eftir fyrirlesturinn sveif ég á mann með rautt bindi og tók við hann langt viðtal á norsku. Það reyndist síðan vera Halldór Ásgrímsson. Ég er nýbyrjuð að geta talað um þetta.

KLUKKAN HVAÐ FERÐU Á FÆTUR? Klukkan sjö.

ICELANDAIR EÐA WOW?  Hvað sem kemur mér af skerinu.

LEIGIRÐU EÐA ÁTTU? Ég á, með bankanum mínum.

HVAÐA BÓK ER Á NÁTTBORÐINU?  Ég var að byrja á Barbarian Days eftir William Finnegan, mjög áhugaverðri ævisögu gamals brimbrettakappa. Í innbunkanum eru Sjóveikur í München eftir Hallgrím Helgason, Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup eftir Murakami og Norma eftir Sofi Oksanen. Í útbunkanum eru Ör eftir Auði Övu, Óvissustig eftir Þórdísi Gísladóttur, Takk fyrir að láta mig vita eftir Friðgeir Einarsson og Just Kids eftir Patti Smith, allt frábærar bækur. Svo eru nokkrar undir náttborðinu sem ég kroppa í á milli.

DAGBLAÐ EÐA NET Á MORGNANA? Blöðin. Ég byrja alltaf aftast og les mig fram á forsíðuna.

HVER ER FYRSTA ENDURMINNING ÞÍN? Að pabbi komi og sæki mig þar sem ég stend grátandi í rimlarúminu mínu. Og gleðin við að sjá hann.

Séð og Heyrt spyr spurninga.

Related Posts