Þögli maðurinn:

 

Kvikmyndagerðarmaðurinn Kevin Smith þykir með þeim allra fyndnustu í Hollywood. Hann fer fullkomlega sínar eigin leiðir í handritaskrifum og er oft óvæginn í gagnrýni sinni á samfélagið, þess vegna er hann ekki allra. Honum er ótalmargt til lista lagt en hann skrifar bækur, býr til teiknimyndasögur, er uppistandari og fyrirlesari. Samt segist hann ekki vera mikið fyrir að tala og kjósa að halda sig til hlés ef hann mögulega geti.

 

Fyrsta mynd hans, Clerks, sló í gegn og þótti bæði frumleg og skemmtileg. Hún byggði á lífi Kevins sjálfs en um þær mundir vann hann við afgreiðslu í matvörubúð. Í henni steig í fyrsta sinn fram í dagsljósið karakterinn Silent Bob sem margir vilja meina að sér nokkurs konar „alter ego“ höfundarins. Myndin vann til verðlauna á Sundance-kvikmyndahátíðinni og í kjölfarið keypti Miramax dreifingarréttinn. Áhorfendur flykktust á hana og svo vel gekk hún að Kevin gat notað gróðann til að gera aðra mynd. Mallrats gekk ekki jafnvel í kvikmyndahúsum og fyrri myndin en skilaði jöfnum og góðum tekjum á vídeóleigum. Þá þegar var farinn að myndast í kringum Kevin hópur harðra aðdáenda sem kom saman til að horfa á og ræða myndir hans.

Kevin Patrick Smith fæddist 2. ágúst árið 1970 í Red Bank í New Jersey en í því umhverfi gerast flestar af fyrstu myndum hans. Pabbi hans, Donald, vann hjá póstinum og mamma hans, Grace, var heimavinnandi. Hann á eldri systur, Virginiu, og bróðurinn Donald Jr. Fjölskyldan er kaþólsk og Kevin alinn upp í virðingu fyrir trúnni. Á fullorðinsárum hefur hann lítið ræktað hana en segist þó sækja messur áður en hann hefur vinnu við nýja mynd og eftir frumsýningar. Hann lauk framhaldsskólaprófi en er ekki háskólamenntaður. Hann dreymdi um að gera kvikmyndir og safnaði sjálfur peningum til að gera Clerks sem sló óvænt í gegn og gerði honum auðveldara fyrir að fá fjármagn til að gera þá næstu.

Mallrats markaði að mörgu leyti tímamót á ferli Kevins því við gerð hennar kynntist hann Ben Affleck og Jason Lee sem áttu eftir að vinna með honum síðar. Um þær mundir sem hann vann að þessari mynd urðu hann og Joey Lauren Adams par og hann segir að samband þeirra hafi orðið honum innblástur að handriti næstu myndar, nefnilega: Chasing Amy. Joey Lauren lék aðalhlutverkið í þeirri mynd á móti Ben Affleck. Meðan á tökunum stóð slitnaði upp úr sambandi leikstjórans og Joey Lauren og um svipað leyti kynnist hann tilvonandi eiginkonu sinni Jennifer Schwalbach Smith.

Trúarbragðaádeila og lítil dóttir

Þrátt fyrir þessar sviptingar í einkalífi hans vann myndin til tvennra „Indipendent Spirit“-verðlauna. Önnur fyrir besta handrit og hitt fyrir besta leik í aukahlutverki en það var Jason Lee sem tók þau með sér heim. Strax eftir verðlaunaafhendinguna hóf Kevin að vinna að sinni umdeildustu mynd eða Dogma. Sú mynd gerir stólpagrín að trúarbrögðum og öllum þeim deilum sem sprottið hafa í kringum þau. Kevin veltir fyrir sér hvað muni gerast ef Guð taki sér frí og heimurinn verði látinn sjá um sig sjálfur á meðan. Tveir erkienglar leika lausum hala um mannheima og eru sannarlega engir englar í athöfnum sínum. Englana tvo leika þeir Matt Damon og Ben Affleck snilldarlega.

Dogma kom út árið 1999 og sama ár fæddist þeim Kevin og Jennifer dóttirin Harley Quinn og þær mæðgur léku báðar hlutverk í næstu mynd, Jay and Silent Bob Strike Back. Aðalpersónur þeirrar myndar voru byggðar á tveimur karakterum sem fram að því höfðu leikið alger aukahlutverk í öllum myndum hans. Jay og Silent Bob stíga ekki í vitið og hafa einstakt lag á að koma sér í vandræði. Í myndinni leggja þeir land undir fót til að bjarga órangútanapa og finna í leiðinni ástina, skerpa vináttuna og læra verðmæta lexíu eins og vaninn er í svokölluðum „road-trip“-myndum.

Kevin leikur ævinlega sjálfur Silent Bob sem mælir aldrei orð af vörum en félagi hans Jay talar fyrir þá báða. Bob er ævinlega með derhúfu sem snýr öfugt á höfðinu á honum og er jafnlaginn og Jay við að koma sér í vandræði. Kevin er hokkíaðdáandi og í öllum hans myndum er tilvísanir í þá íþrótt. Hann kann líka að meta Star Wars og margir þykjast geta lesið ýmsar vísanir í þá seríu í vinnu hans ásamt myndum Stevens Spielberg og Johns Hughes. Teiknimyndasögur hafa líka fylgt honum frá barnæsku og hann samið nokkrar slíkar sjálfur og þess sér sannarlega merki í myndum hans. Enn eitt höfundarbragð hans er að þakka ævinlega í lokin undir liðnum Special Credits: guði, eiginkonu sinni, Scott Mosier, Jason Mewes og kvikmyndatökumönnunum.

Ferill á  niðurleið

Segja má að Kevin horfi á heiminn frá allt öðru sjónarhorni en flestir og hann skynjar það vel sjálfur, enda heitir framleiðslufyrirtæki hans Askew Films eða skakkar myndir. Næst á eftir Jay og Silent Bob komu myndirnar Jersey Girl og Clerks II sem þótti lélegt framhald af þeirri fyrri og árið eftir Zack and Miri Make a Porno. Sú mynd hefur hlotið mjög misjafna dóma en það er ekkert nýtt þegar Kevin Smith er annars vegar. Hann tjáir sig sjaldan um myndir sínar eða þær viðtökur sem þær fá en hefur sagt um þessa mynd: „Ég var frekar langt niðri þegar ég gerði myndina og mig langaði til gera mun betur. Eftir að myndin var frumsýnd sat ég þarna og hugsaði með mér: Þá er það búið. Ég er búinn að vera. Myndin gekk ekki vel og ég gerði út af við starfsferil Seth Rogen. Hann var á hraðri uppleið þar til hann hóf samstarf með mér. Ég er ferilsslátrari. Judd Apatow varð brjálaður, Internetið trylltist því öllum þar líkar vel við Seth og eina ástæðan fyrir því að fólki þar líkaði við mig var sú að ég vann með honum. Og nú er ég sem sé farinn til fjandans. Þetta var bara eins og í framhaldsskóla. Ég var dauður í augum annarra. Allir hlógu að mér.“

Í kringum Zack og Miri skapaðist hins vegar fljótlega „cult“-stemning líkt og með aðrar myndir meistara Kevins Smith og hann tók höndum saman við Bruce Willis og Tracy Morgan og gerði myndina Cop Out árið 2009. Upphaflega átti myndin að heita: A Couple of Dicks en fallið var frá því af ótta við að særa viðkvæma blygðunarkennd bandarískra áhorfenda. Myndin fékk ekki góða dóma og hið sama má segja um næstu mynd hans Red State. Sú byggir á hryllingssögu Westboro Baptist Church og prestsins þar Fred Phelps en hann barðist hatrammlega gegn samkynhneigðum og varð alræmdur fyrir auglýsingaborða og skilti með áletrunum á borð við: Guð hatar homma.

Þrátt fyrir að ferill hans sem kvikmyndagerðarmanns sé í talsverðri lægð er hann alls ekki atvinnulaus. Hann hefur leikið í ótal myndum hjá öðrum og bók hans, Silent Bob Speaks seldist mjög vel. Hann rekur líka myndsögubókaverslun sem heitir Secret Stash í New Jersey og þangað leita bæði safnarar og aðrir aðdáendur þeirrar bókmenntagreinar. Jennifer, konan hans, er blaðamaður og upphaf kynna þeirra var einmitt þegar hún tók viðtal við hann fyrir USA Today. Þau halda saman úti podcast-þættinum Plus One en Jennifer er mjög glæsileg kona og þegar henni bauðst að sitja fyrir hjá Playboy ákváðu þau að taka boðinu en Kevin tók myndirnar.

Nýjasta mynd þessa fjölhæfa listamanns heitir Tusk og er hryllingsmynd. Sú gekk heldur ekki vel og Kevin tapaði miklum peningum á gerð hennar. Hann lýsti því yfir í kjölfarið að hann hygðist algerlega hætta að gera kvikmyndir en hefur síðar dregið í land og sagst ætla að halda áfram og gera kvikmyndir eins og honum einum er lagið.

Related Posts