Páll Stefánsson (56) er orðinn sendiherra SONY á Íslandi:

 

Tæknirisinn SONY gerði í lok síðasta árs ljósmyndarann Pál Stefánsson að sendiherra sínum á Íslandi, svokallaðan Country Ambassador. Heiðurinn sem Páli er sýndur með þessu er mikill, enda eru landsambassadorar SONY aðeins sautján talsins.

 

Palli

ENGIN FRAMTÍÐ: Páll hefur farið um víða veröld og tók meðal annars magnaðar myndir af mannlífinu í stríðshrjáðu Sýrlandi. Hér heldur stóri bróðir á tveggja daga systkini sínu. Hann er einn 11 milljóna Sýrlendinga sem eru á flótta. Pabbi hans er dáinn og framtíðin í raun engin.

Palli

LÍFIÐ HELDUR ÁFRAM: Páll segir þá sem mest þjást, konur og börn, oft gleymast á stríðshrjáðum svæðum. Lífið heldur samt áfram og hann segist hafa viljað, með myndum sínum frá Sýrlandi, fókusa á þetta fólk og sýna jákvæðar myndir frá hryllingnum. Vegna þess að lífið heldur alltaf áfram.

Palli

FEGURÐ LANDSINS: Langisjór, Fögrufjöll.

Palli

AÐ TAFLI: Ekkert mannlegt er Páli óviðkomandi og þessa mynd tók hann í síðustu viku á skákmóti Hróksins á Stofunni við Vesturgötu.

Palli

STRÍÐSLEIKUR: Sýrlenskir flóttamenn við líbönsku landamærin.

 

Flottur Páll Stefánsson, ritstjóri Iceland Review, hefur lengi verið í fremstu röð ljósmyndara á Íslandi og er nú orðinn sendiherra SONY á Íslandi. „Þetta var tilkynnt í desember,“ segir Páll og þótt hann sé hógværðin uppmáluð viðurkennir hann að vissulega sé um mjög ánægjulegan heiður að ræða.

SONY velur landsambassadora sína vandlega og hugmyndin er að mynda fjölbreyttan hóp fagfólks í ljósmyndun. Í kynningu SONY á Páli segir meðal annars að hann hafi tekið myndir í ríflega 35 ár og fengið myndir birtar hjá alþjóðlegum útgáfum á borð við Time, National Geographic, Newsweek, Geo, W, Sunday Times Magazine. Leica Photography og Observer Magazine, svo eitthvað sé nefnt.

Samningur Páls við SONY felur í sér að fyrirtækið leggur honum til fokdýrar, hágæðaljósmyndagræjur sem fengur er að. „Þetta er það fyrirtæki sem er að gera langmest spennandi hlutina í vélum. Það er nú málið en mér finnst þó græjurnar ekki aðalatriðið í þessu, heldur að fá að vinna verkefni fyrir SONY út um allt. Ég fæ til dæmis að fara til Ríó á þeirra vegum. Það er alltaf gaman að koma til Ríó.“

Páll hefur fylgst vel með eldgosinu í Holuhrauni og birtir í nýjasta tölublaði Iceland Review stórkostlegar myndir sínar af eldgosinu, enda segir hann meira spennandi viðfangsefni fyrir ljósmyndara vandfundin.

Related Posts