Klakastoltið þreytist seint:

 

Um þessar mundir er kvikmyndin Land Ho í sýningu á vegum Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík. Þar fyrir utan fer stórmyndin Interstellar bráðum að bresta á. Báðar myndirnar eiga það sterkt sameiginlegt að Ísland spili burðarrullu ef ekki að minnsta kosti stórt aukahlutverk. Í ljósi þess að stöðugt eru nýir titlar að bætast við er hálfgerð skylda að staldra aðeins við og renna yfir listann yfir þær frægu myndir sem hafa verið teknar hérlendis.

 

Noah (2014)


Viðtökurnar við biblíuepík Darrens Aronofsky voru vægast sagt misjafnar en gátu fáir neitað því að umhverfið var til fyrirmyndar og smellpassaði við stílinn. Allt leikaralið myndarinnar mætti hingað til landsins og dvaldi um skeið, þar á meðal Anthony Hopkins, Jennifer Connelly og Emma Watson. Aðalleikarinn Russell Crowe mætti sjálfur með mikinn skeggvöxt og var ekkert feiminn við það að „mingla“ aðeins við Íslendinga, meðal annars á Menningarnótt. Noah var tekin upp sumarið 2012.

 

Oblivion (2013)


Íslendingar gleyma seint ,,Tom Cruise“ vaktinni þegar hann mætti einnig til landsins sumarið 2012 ásamt Russell Crowe og félögum, en í annarri umdeildri stórmynd. Ísland nýtur sín í botn sem eftirheimsendaumhverfi, táknandi hálfdauða plánetu. Þetta er mjög vinsælt sögusvið til að fanga hér á landi, en útlitið var eitt af því fáa sem áhorfendur voru á einu máli um. Sagan í Oblivion þykir klúðursleg þó Krúsarinn gefi sig allan fram. Ljóst er að minnsta kosti að þessi fyrsta heimsókn hans til okkar muni aldrei hverfa úr minninu í ljósi þess að Katie Holmes kvaddi hann endanlega á sama tíma.

 

The Secret Life of Walter Mitty (2013)


Ben Stiller féll dolfallinn fyrir landinu, svo mikið að hann tók upp hálfa myndina sína hér, í hlutverki Íslands, Grænlands og Afghanistan. Myndin hlaut frábæra aðsókn á heimavelli í byrjun ársins en hlaut dræma aðsókn og misjafna dóma í heimalandi sínu. En Íslendingum til skemmtunar fengu m.a. Ólafur Darri, Gunnar Helgason og fleiri að njóta sín á skjánum í góðu sprelli.

 

Die Another Day (2002)


Klakahöll illmennisins í þessari vægast sagt umdeildu Bond-mynd stendur enn upp úr í minningunni þegar hugsað er til hennar, enda varla hægt að segja að hún hafi sóst grimmt eftir því að ná raunveruleikabundnum smáatriðum rétt (reynið einnig að hlusta eftir „íslenskunni“ sem töluð er í bakgrunninum, algjört geimverumál). Annars er bílaeltingaleikurinn – sem tekinn var upp við Jökulsárlón – einn af hápunktum Íslandssenanna. Einnig var íslensk númeraplata á „vonda“ bílnum. Merkilegt.

 

Batman Begins (2005) … in Iceland?


Hér byrjaði þetta allt og megum við Íslendingar vera óendanlega stoltir af því að Batman, ein harðasta hetja heimsins, var þjálfuð á Klakanum … af engum öðrum en ofurmenninu Liam Neeson. Þetta er mögnuð tvenna og sést landið í tæplega tíu mínútur í heildina. En þetta eru tíu mjög góðar mínútur. Myndin var tekin upp í Öræfasveit, við Svínafellsjökul og Vatnajökul svo eitthvað sé nefnt og er ætlast til þess að áhorfandinn kaupi umhverfið sem Tíbet, en við vitum öll betur.

Leikstjórinn Christopher Nolan snéri aftur seinna á síðasta ári til að taka upp mikilvæga kafla fyrir Interstellar, og hennar er beðið eftir með talsverðum eftirvæntingum.

 

Stardust (2007)


Charlie Cox, Michelle Pfeiffer, Claire Danes, Sienna Miller, Mark Strong og Robert De Niro fara með aðalhlutverkin í þessari líflegu ævintýramynd. Ekki er mikið um íslenska náttúru en þó eitthvað og hún öskrar aldeilis til þeirra sem þekkja hana. Stórfín ævintýramynd sem fleiri mættu alveg kynna sér.

 

Journey to the Center of the Earth (2008)


Ævintýrið hefst hjá okkur og eftir að landslagið hefur fengið að njóta sín eru helstu persónur þessarar myndar komnar inn á svæði þar sem sviðsmyndir og blá tjöld koma að góðum notum. Í myndinni ferðast þeir Brendan Fraser og Josh Hutchinson (úr The Hunger Games) til Íslands og hitta þar hana Anítu okkar Briem. Beint í kjölfarið tekur brellufjörið við. Frábær tilbreyting er að ekkert sé verið að kalla landið einhverju öðru nafni, eins og meirihluti myndanna á listanum gera. Sagan heitir líka á okkar máli Leyndardómar Snæfellsjökuls. Fraser og Hutchinson gera meira að segja tilraun til þess að tala tunguna okkar og bera fram sérheiti með vonlausum árangri.

 

Prometheus (2012)

matador_ver7_xlg
Breski fagmaðurinn Ridley Scott hefur verið duglegur að fullyrða það í viðtölum (og DVD-aukaefni) að tökurnar á Íslandi hafi verið með því besta sem hann hefur upplifað á vinnutímum. Hann hefur farið fögrum orðum um bæði landslagið og fólkið sem kom að vísindaskáldsögunni Prometheus, eða lauslegri forsögu fyrstu Alien-myndarinnar, eins og margir líta á hana. Myndin hlaut misgóða dóma og þótti töluverð vonbrigði í fyrra en útlitslega er ótvírætt hversu aðlaðandi hún er. Í myndinni er landslag okkar klætt upp sem Skotland, fjarlæg pláneta að nafni LV-223 og jörðin fyrir tíma mannkynsins. Ekki amaleg nýting.

 

Flags of Our Fathers (2006)


Clint Eastwood kvikmyndaði þessa stórmerkilegu endursköpun á innrásinni á Iwo-Jima sumarið 2005. Svarti sandurinn við Sandvík var einmitt það sem leikstjórinn hafði sóst eftir og var notast við fleiri hundruð íslenskra karlmanna sem allir voru klæddir upp sem bandarískir hermenn. Atriðin þóttu stór og mikil og undarlega fljót í tökum miðað við stærð en þannig rúllar bara Clint karlinn. Tökurnar voru einnig notaðar í systkinamynd Flags of our Fathers, Letters from Iwo-Jima.

 

Hostel Part 2 (2007)


Þessi landkynning, ef landkynningu mætti kalla, er stutt og eingöngu fyrir þá áhorfendur sem þora. Grimmu og vægðarlausu Hostel-myndirnar hans Eli Roth munu seint teljast til snilldarverka í hryllingsgeiranum en leikstjórinn er engu að síður Íslandsvinur mikill. Hann hefur oft komið og stoppað við og ekki nóg með það að hafa hann Eyþór Guðjónsson í eftirminnilegu aukahlutverki í fyrstu myndinni, þá gerist mikilvægur hluti framhaldsmyndarinnar í Bláa lóninu. Gallinn er hins vegar sá að þó að við Íslendingar þekkjum staðinn vel, þá á senan að gerast í Slóvakíu. Fúlt.

 

Fleira:

A View to a Kill (1985), When the Light Comes (1998), Lara Croft: Tomb Raider (2001), Shackleton (2002), The Girl in the Café (2005), Game of Thrones: sería 2 og 3 (2011-2012), Thor: The Dark World (2013)

Related Posts