Halldóra Geirharðs (46) mátaði sig við leikstjórastólinn:

 

Leikkonan Halldóra Geirharðsdóttir hefur nánast ekkert fengist við leikstjórn en frumsýndi sinn fyrsta farsa, Beint í æð, á Stóra sviðinu í Borgarleikhúsinu. Hún segir átta vikna æfingarferlið nánast hafa verið stanslausa skemmtun þar sem hún hló í sjö vikur og þótti allt ómögulegt í eina.

Hlátur og grátur Halldóra Geirharðsdóttir leikstýrir farsanum Beint í æð sem var frumsýndur nýlega á Stóra sviði Borgarleikhússins. Hilmir Snær Guðnason fer með aðalhlutverkið, leikur lækni sem lendir í alls konar hremmingum þegar stöðuhækkun er handan við hornið.

„Ég leikstýrði gamanleiknum Jón og Hólmfríður fyrir tólf árum og er nýgræðingur á leikstjórastólnum,“ segir Halldóra. „Og ég veit ekki hvort ég verði mikið í þeim stól áfram. Kannski og kannski ekki.“

Halldóra skemmti sér þó konunglega við uppsetninguna og segir átta vikna æfingaferlið nánast hafa verið stanslaust stuð. „Það var ofsalega gott að hlæja í sjö vikur en eina vikuna var ekkert hlegið. Manni finnst allt ömurlegt á næstsíðustu vikunni en svo þegar fólk fer að mæta áttar maður sig aftur á því hvað þetta er allt skemmtilegt.“

Auk Hilmis Snæs fara Guðjón Davíð Karlsson, Halldór Gylfason, Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir og fleiri með hlutverk í sýningunni og Halldóra segir það lítið mál að setja upp sýningu með slíku fólki. „Ég er með eintómar kanónur þarna sem gerði vinnu mína mjög auðvelda. Ég er bara með góða leikara í þessu.“

Related Posts