Audrey Hepburn (1929 -1993) var góðmennskan uppmáluð:

Það segir sína sögu um viðhorf til leikkvenna í Hollywood að Audrey Hepburn er helst minnst fyrir náttúrlega fegurð og sem tískutákns þótt hún hafi helgað stóran hluta lífs síns hjálparstarfi á vegum UNICEF og talaði fjölda tungumála. Hún var frábær leikkona sem sópaði að sér verðlaunum og óneitanlega hafði hún varanleg áhrif á tískuheiminn.

Audrey Hepburn var bresk, fædd í Belgíu og eyddi æskunni á flakki milli Belgíu, Englands og Hollands. Hún bjó meðal annars í Arnheim í hernámi Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni en sú reynsla varð ekki síst til þess að hún lagði sig fram um að rétta þeim sem minna máttu sín hjálparhönd. Hún talaði fjölda tungumála, þar á meðal ensku, frönsku, hollensku, ítölsku, spænsku og þýsku.

ELEGANT:Audrey Hepburn er enn þann dag í dag tískuíkon.

ELEGANT:Audrey Hepburn er enn þann dag í dag tískuíkon.

Hún lærði ballett í Amsterdam en flutti til London 1948 þar sem hún hugðist halda æfingum áfram. Hún lék í nokkrum breskum kvikmyndum og árið 1951 lék hún aðalhlutverkið í Gigi á Broadway. Í kjölfarið fékk hún hlutverk í Roman Holliday á móti Gregory Peck. Fyrir hlutverk sitt í þeirri mynd varð hún fyrst allra leikkvenna til þess að hljóta Óskarsverðlaun, Golden Globe og BAFTA-verðlaunin fyrir eitt og sama hlutverkið.

Í framhaldinu lék hún í vinsælum kvikmyndum eins og Sabrina, The Nun’s Story, Breakfast at Tiffany’s, Charade, My Fair Lady og Wait Until Dark en fyrir þá mynd hlaut hún tilnefningar til Óskarsverðlaunanna, Golden Globe og BAFTA. Hún er ein fárra listamanna sem hafa hlotið Óskars-, Emmy-, Grammy-, Tony- og BAFTA-verðlaun. BAFTA-verðlaunin hlaut hún í þrígang sem besta breska leikkonan í aðalhlutverki.

Kvikmyndahlutverkum Hepburn fækkaði eftir því sem leið á ferilinn og hún helgaði sig í æ ríkari mæli hjálparstarfi á vegum UNICEF. Hún hafði að vísu lagt samtökunum lið allt frá 1954 en á milli 1988 til 1992 starfaði hún á mörgum vanþróuðustu svæðum í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. George Bush, forseti Bandaríkjanna, sæmdi hana Frelsisorðu forsetans 1992 fyrir störf sem góðgerðarsendiherra. Mánuði síðar lést Hepburn á heimili sínu í Sviss, 63 ára að aldri.

Hepburn þótti með best klæddu konum síns tíma og 1961 fékk hún sess á alþjóðlegum lista yfir best klædda fólk heims. Þá hefur hún hlotið nafnbót eins og „fallegasta kona allra tíma“ og „fallegasta kona 20. aldarinnar“ í skoðanakönnunum. Hönnuðurinn Hubert de Givency átti sinn þátt í að móta stíl Hepburn en hún var honum að sama skapi endalaus innblástur. Hann sá um búninga hennar í Sabrina og þar með hófst ævilöng vinátta og samstarf en Givency klæddi hana einnig í myndum eins og Funny Face, Love in the Afternoon, Breakfast at Tiffany’s, Paris When It Sizzles, Charade og How to Steal a Million.

Related Posts