Fitt og flott, heilsublað, megrun, mataræði Fitt og flott, heilsublað, megrun, mataræði

GOTT OG HOLLT: Góðar hugmyndir að léttum millimálum eru gulls ígildi

Hundrað hitaeininga millimál:

Margir eiga við það vandamál að stríða að borða of margar hitaeiningar milli mála. Þó svo að margri vilji meina að það sé hollt að borða fleiri en þrjár máltíðir á dag megum við ekki fara yfir ráðlagðan dagskammt, sem er 2000 til 2500 hitaeiningar. Hér eru nokkrar góðar hugmyndir að léttum millimálum sem eru þó ekki meira en hundrað hitaeiningar.

 

 

Þegar setið er á sötri er oft freistandi að snarla á einhverju söltu með. Í stað þess að grípa í flögur eða salthnetur er sniðugt að fá sér frekar ólífur. Þá ertu ekki að bæta enn fleiri hitaeiningum í sarpinn, því vínið telur nóg.

 

 

Kotasæla er tilvalin milli mála því hún er fitulítil en prótínrík. Til dæmis er gott að fá sér einn desilítra af kotasælu, um það bil þriðjung af lítilli dós, ásamt hálfu epli. Þannig ertu að fá næringarríkt en hitaeiningasnautt snarl.

 

 

Paprikur eru einstaklega hollar því þær eru stútfullar af C-vítamíni. Hægt er að skera niður eina rauða papriku og borða með um það bil tveimur matskeiðum af fetaosti í teningum, mjög þægilegt snarl í nestisboxið.

 

 

Auðvelt er að gera fjótlegt og gott snarl með hummus. Til dæmis má skera niður hundrað grömm af grænmeti, s.s. gulrætur, spergilkál eða blómkál, og nota það til að dýfa ofan í um tvær matskeiðar af hummus. Til að krydda tilveruna aðeins er hægt að bragðbæta hummus með steinselju eða öðrum ferskum kryddjurtum.

 

 

Vínber eru þægilegt millimál sem auðvelt er að skella í nestisbox. Á sólríkum sumardögum er tilvalið að frysta berin, þá verða þau eins og litlir Sun Lolly-molar. Þau eru svo gómsæt að maður verður að passa sig að borða ekki of mikið, tuttugu og átta ber eru um hundrað hitaeiningar.

 

 

Í eggjum er bróðurpartur hitaeininga í rauðunni. Ef maður er að leitast eftir því að takmarka hitaeiningafjöldann þá er sniðugt að fá sér eggjahræru eingöngu úr hvítunum. Tvær hrærðar eggjahvítur ofan á heilhveitibrauði með nýmöluðum pipar og dálitlum graslauk er ljúffengt og hollt millimál.

 

 

Hrískökur eru léttar og glútenlausar og því góðar í stað kex með eftirmiðdagskaffinu. Gott er að smyrja þær til dæmis með möndlusmjöri, sem er hollara en venjulegt hnetusmjör, eða með stöppuðum avókadófjórðungi. Hvort tveggja inniheldur mikið magn af góðum fitusýrum og vítamínum.

 

 

Kíví er frábær ávöxtur því einungis eitt stykki inniheldur allan ráðlagðan dagskammt C-vítamíns. Til þess að gera það dálítið meira spennandi er gott að skera það niður í sneiðar og strá matskeið af kókosflögum yfir.

Related Posts