Ólafur Sigurðsson (61) á stærsta vínylplötusafn landsins:

 

Meindýraeyðirinn Ólafur Sigurðsson á eitthvert allra veglegasta vínylplötusafn landsins. Hvorki meira né minna en 30.000 hljómplötur og er hann þó þegar búinn að losa sig við 10.000 titla. Óli segir vínylinn fanga hinn sanna tón.

STRÍÐSTÓNLIST: Óli með veglegt sett af gömlum 78 snúningaplötum sem spilaðar voru í klúbbum í London á stríðsárunum.

Safnari Ólafur Sigurðsson meindýraeyðir á um 30.000 hljómplötur og er hvergi nærri hættur að sanka að sér plötum. Hann segir hljóminn í vínylnum bera af og þarf ekki að kvarta þar sem verðmæti safns hans hefur snarhækkað eftir að vínyllinn komst aftur í tísku.

„Það var alltaf verið að spyrja mig hvurslags asnaskapur það væri að vera safna þessu,“ segir Óli sem hefur safnað vínylplötum í áratugi. „Ég bætti nú bara í frekar en hitt eftir að geisladiskurinn kom til sögunnar.“

Plötusafn Óla hefur stækkað jafnt og þétt á síðustu árum og hann hefur aldrei verið jafnharður í söfnuninni og síðustu tíu árin. „Hér áður fyrr átti ég bara mitt plötusafn en á síðustu tíu árum hef ég aukið verulega við þetta og eftir að ég komst í betra húsnæði fór ég að safna fyrir alvöru. Margir átta sig ekki á því að þetta er tónlistarsafn og að vínyllinn er ódýrasta leiðin til þess að safna tónlist.“ Óli segir þó verðið á plötunum hafa hækkað eftir að vínyllinn komst aftur í tísku. „Eftirsóknin í framúrstefnu rokkið, Deep Purple, Led Zeppelin og það allt er orðin mikil og þá hækkar þetta í verði.“

CLYDERMAN FÉKK AÐ FJÚKA

UPPÁHALDIÐ: Óli með King Crimson sem setti hann alveg út af laginu með framúrstefnurokki sínu 1968.

Óli á rúmlega 30.000 plötur og í þessu veglega safni leynast vitaskuld alls konar dýrgripir. „Ég lagðist til dæmis í að safna fyrstu útgáfum af öllum plötum Rolling Stones í góðu standi. Þetta er bara eins og í bókunum. Það er meira gaman að eiga frumútgáfurnar,“ segir Óli en helsta markaðstorg hans er uppboðsvefurinn eBay. Safn Óla var enn stærra en hann er búin að grisja um 10.000 plötur úr safninu. „Ég trimmaði þetta aðeins niður og lét Richard Clyderman og svona fara í Góða hirðinn. Þetta er svakalegt frákast.“

Þótt safnið sé stórt segist Óli vita hvar allar plöturnar eru. „Þetta er allt vandlega flokkað og það skemmtilega við þetta er að ég er mjög fljótur að finna þá plötu sem mig langar að spila hverju sinni.“

Óli er safnari af lífi og sál. Faðir hans stofnaði á sínum tíma Landssamband frímerkjasafnara og hann byrjaði ungur að safna frímerkjum. „Ég safnaði frímerkjum sem krakki en fannst það leiðinlegt og hætti því. Og ég sé ekki eftir því vegna þess að frímerkjaverð hefur hrunið, nema á þessum allra elstu, en vínyllinn er á uppleið.“ Óli fetaði þó á sinn hátt í fótspor föður síns þegar hann stofnaði Vínylplötuklúbbinn. Óli segist ekki stunda sölu og skipti á plötum að neinu ráði og reyni að vísa öllum fyrirspurnum um kaup úr safninu frá sér.

ÓMISSANDI Í PARTÍIN: Ferðaplötuspilari sem Óli kippir stundum með sér í gleðskap ætli hann að þeyta gömlum 7 tommu skífum.

HINN TÆRI TÓNN

Óli segir margsannað að hljómurinn sé miklu meiri og betri af vínylnum en geisladiskum. „Vínyllinn tekur allt hljóðsviðið á meðan geisladiskurinn klippir ofan og neðan af og MP3 tekur enn meira af. Þetta er eins og að skreyta tertu en taka svo allt skrautið af þangað til ekkert er eftir nema botninn. Hljómsveitum finnst líka gaman að gefa út á vínyl eftir að hann komst aftur í tísku. Það er miklu meiri og veglegri pakki.“

The Rolling Stones, The Beatles og King Crimson eru í miklu uppáhaldi hjá Óla. „King Crimson eru rosa sérstakir og gerðu allt brjálað með fyrstu plötunni sinni. Þá var nú gaman að lifa. Ég hef alltaf átt heima í Hafnarfirði. Þegar maður var unglingur voru allir að vinna á bryggjunni. Maður fékk útborgað á föstudögum og fór beint í Fálkann að kaupa plötur. Svo var bara farið beint heim að hlusta og pæla. Þessi gleði og spenningur er ekki lengur í kringum þetta. Þetta var sérstök upplifun. Svo komu vinirnir í heimsókn til að hlusta með manni, lesa textana og ræða þetta allt fram og til baka.“

Hljómplatan er að sjálfsögðu gagnslaus nema almennilegur plötuspilari fylgi með og þar er heldur ekki í kot vísað hjá Óla. „Ég er með einn í stofunni, einn í skúrnum og svo er ég með eitthvað um 25 plötuspilara sem ég er að gera upp. Þetta eru allar gerðir. Litlir ferðaspilarar en ég tek oft einn þannig með mér í partí til þess að spila litlu 7 tommu plöturnar. Þessar 45 snúninga plötur eru skemmtilegt dæmi.“

Related Posts