Gamandramað París Norðursins nær rétt svo flugi:

 

Ljóst er nú formlega orðið að Hafsteinn Gunnar Sigurðsson er maður sem kann að meta þær þægilega lágstemmdar, utan borgar, karakterdrifnar, notalegar, þurrar en jafnframt fyndnar, léttsúrar og hversdagslegar. Heppnaðist það glæsilega síðast með myndinni Á annan veg, ekki alveg eins glimrandi vel hér.

Einn skærasti punkturinn á þessum bæ er án efa kvikmyndatakan. Klipping og taktur er nokkuð ágætur einnig, leikararnir góðir en húmorinn misjafn, sveiflandi til og frá því að vera hnyttinn og kallandi eftir dósahlátri. Sérvitri tónninn er í lagi, fyrir utan það að myndin snertir sama og engar taugar þegar hana langar að vera dramatísk. Fyrir mér fylgir það því að erfitt er að vera annt um hverja einustu persónu. Má hlæja að þeim, með, vorkenna í nokkrar mínútur en varla meir.

Þumalputtareglan hér í persónusköpuninni er að afhjúpa lög hvers einstaklings hægt og rólega, en oft bara svo hægt sé að stafa hlutina út um hvern á gefnu mómenti. Það heldur manni í kærkominni óvissu en gerir fólkið bara á skjánum meira fráhrindandi þegar svona lítið kjöt fylgir hverjum og minna gert til að vinna úr því. Björn Thors hefur reyndar aldrei staðið sig betur í bíórullu en karakterinn hans, og flestra annarra, er oft úti á þekju sama hversu jarðbundinn eða eðlilegur hann er. Ef hann skilur eitthvað eftir sig er það allt Birni að þakka.

Þetta jafnast út í það að vera bæði fínt og flatt innlit til Flateyris. París Norðursins er kannski ekkert að hjálpa íslensku bíósenunni að losna undan þeim stimpli að við gerum varla myndir án fjölskyldutengdra deilna, áfengisvanda, stefnulausra rólegheita o.þ.h., en samt ágætlega heppnuð mynd á ýmsum sviðum. Hún nær tökum á því að flakka á milli kalda húmorsins og hlýju fólks-stúderingarnar en aldrei verður sagan nægilega áhugaverð eða umhyggjuvekjandi til að allt hitt nái að sigla í höfn.

 

3stars

Related Posts