Ég eyddi síðustu helgi í Vestmannaeyjum. Draumadísin mín er úr Eyjum og nýútskrifuð sem hárgreiðslukona og því var útskriftin að sjálfsögðu haldin þar. Helgin var hin mesta skemmtun og útskriftarveislan var einstaklega vel heppnuð. Foreldrar mínir mættu og hittu tengdafjölskyldu mína í fyrsta skipti þannig að þá er það frá.

Sunnudagurinn eftir útskriftarveisluna var erfiður. Við vorum mætt fyrir hádegi í salinn þar sem veislan fór fram kvöldið áður og byrjuð að þrífa. Við vorum þunn.

Þegar þrifunum lauk var komið að því að slaka á þangað til Herjólfur sigldi til Landeyjahafnar klukkan korter í sjö – eða það héldum við allavega. Skjótt skipast veður, sagði einhver einhvern tímann og þessi einhver hafði svo sannarlega rétt fyrir sér því nú var að koma stormur og viðbjóðsveður. Síðasta ferðin heim var klukkan fjögur og nú þurfti að hafa hraðar hendur til að breyta miðunum og koma bílnum með til baka. Það tókst og þá var komið að ferðinni heim með Herjólfi.Móment

Þegar ég var búinn að leggja bílnum niðri settist ég inn í bíósalinn í Herjólfi með kaffibolla og sódavatn. Þarna sat ég í myrkrinu og vonaðist eftir því að ferðin heim yrði þægileg. Svo var ekki.

Það leið ekki á löngu þangað til kaldur svitinn byrjaði að leka og maginn fór á fullt. Dísin mín bauð mér æludall en ég afþakkaði. Þar sem ég sat þarna í svitabaði, þunnur og horfði á Friends hugsaði ég hversu þakklátur ég væri fyrir Landeyjahöfn. Á meðan ég barðist við það að halda ælunni niðri hugsaði ég um það hversu þakklátur ég væri fyrir að ferðin væri aðeins hálftími. Ég byrjaði þó ósjálfrátt að hugsa um það hversu skelfilegt það hefði verið ef Herjófur hefði þurft að sigla til Þorlákshafnar. Þá varð mér enn meira bumbult.

Þegar ég lagðist á koddann í gær byrjuðum ég og dísin mín að ræða næstu ferð til Vestmannaeyja. Sú ferð yrði slökunarferð, ekkert partí sem þyrfti að skipuleggja og halda og ekkert vesen. Bara við tvö í rólegheitunum. Ég var farinn að hlakka til næstu ferðar, enda líður mér vel í Eyjum, og þá kom setningin sem fékk magann á mér til að fara í hnút.

„Þú veist það samt, ástin mín, að Herjólfur siglir eiginlega bara til Þorlákshafnar á veturna …“

Garðar B. Sigurjónsson

Related Posts