Það var einlæg gleði og mikil samkennd þegar Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands. Þjóðin hlýddi á fyrstu ræðu hans í embætti á sama tíma og hún ók heim eftir partí helgarinnar sem voru haldin víða um landið.

Ólafur Ragnar og Dorrit kvöddu sátt og fengu dynjandi lófatak þegar þau óku frá þinghúsinu á vit nýrra ævintýra sem bíða þeirra hér og erlendis. Margir munu án efa sakna þeirra frá Bessastöðum en þjóðin virðist vera sátt við nýja húsbændur þar, sem virðast mæta nýju starfi af auðmýkt og þakklæti.

Guðni Th. og Eliza eru boðberar nýrra tíma og minna okkur á að ekkert varir að eilífu, ný kynslóð sest nú að á Bessastöðum og henni fylgir aragrúi af börnum og virðulegur köttur. Forsetafrúin á einnig stórt pláss í hjarta Vestur-Íslendinga sem eru búsettir í Kanada en þar er hún fædd og uppalin. Dýrmæt tengsl þjóðanna sem mega aldrei gleymast. Framtíðin er björt – förum vel með hana.

Það var áhugavert að fylgjast með hverjum var boðið að Bessastöðum eftir athöfn en þar tóku forsetahjónin á móti gestum sínum. Það er komin ný og önnur elíta í forsetaveislurnar sem að margra mati er löngu tímabært.forsíða

Sköpunarkraftur eyjaskeggja á sér engin takmörk – íslenskar valkyrjur leggja sitt af mörkum til að bæta heiminn með list sinni og frumkvæði. Hugvit, áræðni og hugrekki einkennir þær konur sem deila list sinni með lesendum Séð og Heyrt.

Senn hallar að hausti með öllum þeim verkefnum sem því fylgja, þetta hefur verið gott sumar og gjöfult. Verum ávallt minnug þess að hver dagur er gjöf sem er einstök og veitir ný tækifæri við hvert fótmál. Þau þurfa ekki að vera stór, lítil þúfa ýtir hlassinu af stað – nýr forseti Íslands og leið hans í embætti er dæmi um það. Enginn veit sína ævi fyrr en öll er.

Dveljum í gleðinni – fögnum rökkrinu sem fellur nú á – lifum og njótum. Gerum lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt á hverjum degi.

 

Leiðari vikunnar- blaðið fæst á næsta blaðsölustað.

 

Ásta Hrafnhildur Garðarsdóttir

 

Related Posts