Ég á það til að vera með vesen, allskonar vesen sem mér finnst kannski ekki alltaf vera vesen en öðrum finnst það. Hvað gerir maður þá?

„Ásta mín, ef maður er hamingjusamur þá er maður ekki með vesen.“ Ég get heilshugar tekið undir það en hvenær er maður þá hamingjusamur? „Þegar maður er ekki með vesen.“

Þessi útskýring hljómaði nokkuð sennileg. Mér hefur ósjaldan verið líkt við loðna vini mína og í þessum samræðum var engin undantekning á því. „Þú ert hefðarköttur – sem ert oft með vesen – það þarf bara að gefa þér rjóma í kaffið og strjúka þér endrum og eins þá verður þú farin að mala alla daga.“

Kannski er það bara einmitt svarið við öllu veseninu, að fá sér rjóma í kaffið og láta sér þykja vænt um aðra og leyfum öðrum að þykja vænt um sálartetrið í manni. Til þess að komast á þann stað í tilverunni þá er nauðsynlegt bæði að treysta og gefa fólki tækifæri til að sýna hvað í því býr.

Ég viðurkenni fúslega að sumt af mínu veseni er tilkomið vegna fyrirframgefinna hugmynda minna um það hvernig hlutirnir eiga að vera. Og svo slysast maður til vinstri í lífinu þegar maður ætlaði til hægri eins og vanalega og viti menn – það getur svo sannarlega komið á óvart.

Stundum á lífið, og veröldin, nýtt upphaf sem bíður óþreyjufullt eftir að komast á flug. Tilveran ólmast af gleði og tilhlökkun og allt verður betra, jafnvel fiskbúðingur í dós verður að veislu.

Ég er staðráðin í því að vera með sem minnst „vesen“ í framtíðinni, ég ætla frekar að stússast og gera lífið að þeirri veislu sem það á að vera því þannig verður lífið skemmtilegra eins og Séð og Heyrt er enn.

Related Posts