Morðóði matgæðingurinn kveður:

Sjónvarpstöðin NBC hefur ákveðið að hætta framleiðslu spennuþáttanna Hannibal sem fjalla um raðmorðingjann og mannætuna Hannibal Lecter. Þriðja sería er í gangi núna og ljóst að hún verður sú síðasta. Í bili að minnsta kosti en þáttastjórnandinn Bryan Fuller ætlar sér að reyna að tryggja Hannibal framhaldslíf á annarri sjónvarpsstöð.

Áhorf á þættina hefur aldrei staðið undir væntingum en gagnrýnendur hafa hins vegar ausið þá lofi. Í tilkynningu frá NBC segir að stöðin kveðji Hannibal með stolti og sjálfur þakkar Fuller stöðinni fyrir að hafa hýst mannætuna í þrjú ár.

Danski leikarinn Mads Mikkelsen leikur Hannibal í þáttunum sem eru forleikurinn að kvikmyndinni The Silence of the Lambs þar sem Anthony Hopkins gerði eldri Hannibal ógleymanleg skil.

Related Posts