Ráðherrahjónin Sigrún Magnúsdóttir (70) og Páll Pétursson (77):

 

garas

ÁST Í FRAMSÓKN: Ást í Framsókn var yfirskrift greinar sem fjallaði um Sigrúnu og Pál og birtist á forsíðu DV.

Sundlaug í bakgarðinum!

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, býr í Efstaleiti ásamt manni sínum, Páli Péturssyni, fyrrum félagsmálaráðherra. Þar búa þau í huggulegri og glæsilegri íbúð. Hjónin hafa verið viðriðin pólitík í nokkra áratugi og því ljóst að líflegar umræður fara fram á þessu heimili.

 

Flott í Framsókn „Okkur líður mjög vel hérna, þetta er þægileg og góð blokk. Hér er allt til alls, sundlaug í bakgarðinum sem ég nota mikið og spara þá að þrífa baðherbergið,“ segir Sigrún Magnúsdóttir sem nýlega tók við starfi umhverfis-og auðlindaráðherra.

Sigrún er gift Páli Péturssyni sem gegndi einnig starfi ráðherra og er þetta því í fyrsta skiptið sem hjón hafa bæði gegnt ráðherrastarfi.

„Mér finnst þetta starf eiga mjög vel við hana og ég veit að hún mun gera þetta vel eins og allt annað. Þegar henni bauðst starfið ýtti ég hvorki á hana né dró úr því, heldur leyfði henni algjörlega að taka þessa ákvörðun sjálfri. Ég gat þó ekki setið á mér og sagði henni að ráðherrastarfið hefði verið eitthvað það skemmtilegasta sem ég hef gert á lífsleiðinni, þannig að ég kannski hafði einhver áhrif á þetta,“ segir Páll og brosir.

Ástin kviknar

Sigrún segir þægilegt að hafa Pál heima sem hún getur ráðfært sig við og fengið góð ráð. „Það er mjög gott að eiga hann að og þægilegt að ræða við hann um starfið þar sem hann þekkir samfélagið vel og veit hvernig kaupin gerast á eyrinni.“

Hjónin kynntust í gegnum pólitíkina og sátu marga þingflokksfundi saman þar sem ástin kviknaði. „Hún var í stjórn flokksins og ég var formaður þingflokksins. Sigrún hafði rétt á að sitja þingflokksfundi og við sáumst oft þar. Á þessum tíma vorum við þó bæði harðgift og ekkert að pæla mikið í þessu,“ segir Páll og Sigrún grípur orðið. „Neistinn kviknaði fyrst þegar ég bauð honum á árshátíð borgarstjórnar Reykjavíkur. Mig langaði til að koma með flottan herra með mér og Páll varð fyrir valinu. Hann er mikill séntilmaður og bauð mér í þingveisluna nokkrum vikum síðar og síðan þá höfum við verið óaðskiljanleg.“

kona

OFT Á TÍÐUM ÞREYTANDI: „Auðvitað verður maður stundum þreyttur og pirraður en það er margt gefandi við starfið og þá sérstaklega þegar maður hefur áhuga á því að móta samfélagið og hefur sterkar skoðanir,“ segir Sigrún.

Konur eiga að vera í ljósu

Páll hefur miklar skoðanir á fatnaði konu sinnar og fer ekki leynt með skoðanir sínar í þeim málunum frekar en öðrum. „Ég segi það oft við Sigrúnu að hún eigi að vera í ljósum fötum því konur fá strax forskot um leið og þær eru ljósklæddar við hliðina á karlmönnum í dökkum jakkafötum. Augað leitar alltaf að því ljósa.“ Sigrún hlær að orðum mannsins síns og tekur undir þetta heilshugar. „Honum finnst einn galli á mér og það er að ég kaupi mér of lítið af fötum. Hann sá um þetta lengi vel og keypti á mig allt. Hann hrósar mér mikið þegar ég druslast til að kaupa mér eitthvað. Ég hef alltaf verið svona, ætli það sé ekki af því að ég er svo nægjusöm.“

Hló fyrst

Sigrún sagði ekki strax já við ráðherraembættinu en segir það hafa verið skyldu sína sem alþingismanns að taka við þeim verkefnum sem henni eru falin. „Ég hló fyrst þegar mér var boðið ráðherrastarfið. Þetta var ekki það sem ég ætlaði mér, ég var hamingjusöm á Alþingi og ánægð með að hafa fengið það tækifæri. En ég finn það að ég passa vel inn í ráðuneytið. Það er verið að móta fólk í að huga að umhverfinu og endurvinnslu og fleira. Ég hef mikinn áhuga á öllu sem viðkemur náttúrunni og því afar heppin að fá að starfa við áhugamál mitt.“

Stoltur eiginmaður

Páll er mjög stoltur af konu sinni og þeim ákvörðunum sem hún hefur tekið. „Hún byrjaði í pólitík 1970 og hætti síðan 2002 og fór í háskólann. Eftir að hún hætti í pólitík var hún með miklar yfirlýsingar og sagðist aldrei ætla í pólitík aftur. Hún ætlaði að fara að skrifa og dunda sér. Síðan kom hún heim einn daginn og sagðist vera komin á lista. Ég bjóst við að hún væri heldur neðarlega en hún tjáði mér að hún væri í baráttusætinu. Pólitík er lífsstíll og mjög góður starfsvettvangur þegar maður hefur miklar skoðanir á hlutunum. Þegar ég hætti sem ráðherra 2003 þá fannst mér menn alltaf vera að gera tóma vitleysu. Enda stóð það alveg heima það fór allt til andskotans um leið og ég var hættur. Ég hef haldið því fram að þetta hefði ekki farið svona ef ég hefði haldið áfram,“ segir hann og skellir upp úr.

hun

MIKILVÆGUR: Framsóknarflokkurinn spilar stórt hlutverk í lífi Sigrúnar.

Ekki alltaf sammála

Hjónin neita því þó að þau tali einungis um pólitík þótt það sé oft svo. Þó að þau hafi sinnt sama starfinu þá nálgast þau starfið á allt annan hátt. „Hún hefur alltaf önnur vinnubrögð hvað varðar pólitík. Við erum ekki alltaf sammála en erum með sömu gildi. Sigrún eyðir miklu meiri tíma í tala við fólk og passar baklandið betur en ég. Hún veltir hlutunum meira fyrir sér, ég fer frekar með asa í hlutina og það lánast oftast. Sigrún er líka með þann styrk sem pólitíkus að fólk sem kynnist henni líkar yfirleitt vel við hana, það er hins vegar öfugt hjá mér,“ segir Páll og hlær.

Sigrún segir pólitíkina þó oft verða þreytandi og þá sérstaklega þar sem það er lítið um hrós en mikið last. „Það er sjaldan þakkað fyrir það sem er gert. Við sköpum væntingar og erum kosin út frá því. Þegar búið er að uppfylla kosningaloforðin þá er enginn sem metur það, eins og sést vel núna þar sem Framsókn er búin að uppfylla nær öll kosningaloforðin en fylgið lítið þrátt fyrir það.“

Framsókn hógvær

Páll hefur þó skýringu á lélegu fylgi Framsóknarflokksins í skoðanakönnunum. „Framsóknarmönnum gengur yfirleitt illa í skoðunarkönnunum. Ég tel það vera vegna þess að framsóknarmenn eru hógværir og þó að þeir séu stoltir af því að vera framsóknarmenn þá eru þeir ekki að monta sig af því í skoðanakönnunum. En þeir koma þó alltaf á kjördag,“ segir Páll ákveðinn.

Af hverju ertu ekki bara í golfi?

Sigrún horfir hlýlega til manns síns og það er greinilegt að þau hjónin eru oftast sammála þegar kemur að Framsóknarflokknum. Sigrún bætir við að það sé oft þreytandi að vera að vinna á Alþingi og margir dagar erfiðir. „Auðvitað verður maður stundum þreyttur og pirraður en það er margt gefandi við starfið og þá sérstaklega þegar maður hefur áhuga á því að móta samfélagið og hefur sterkar skoðanir. Ég spyr oft sjálfa mig hvor ég sé eitthvað skrýtin að vilja alltaf halda áfram. En ég er mikil félagsvera og nýt mín innan um fólk og ég væri ekki að halda áfram í þessu ef þetta gæfi mér ekki eitthvað. Það er mjög erfitt að útskýra hvers vegna ég endaði í pólitík. Menn hafa starað á mig og spurt af hverju ég sé ekki bara í golfi heldur en að vera standa alltaf í þessu. En þetta starf gefur mér mikið og þó að það sé erfitt og tímafrekt þá hef ég mjög gaman af þessu.“

Related Posts