Slaufur

METNAÐARFULL:   „Okkur langar til að starfa fyrir okkur sjálf, okkur langar til að lifa af því sem við erum að gera og geta gert það bara fyrir okkur.“

Hulda Birna Vignisdóttir (24) og Einar Einarsson (30) hanna slaufur:

Hulda og Einar áttu sér draum að starfa sjálfstætt. Einn daginn kom hugmyndin og þá ákváðu þau að henda sér í djúpu laugina.

 

 

Feðgaslaufurnar vinsælar „Þetta byrjaði í gríni. Ég var alltaf bindakall en langaði síðan að byrja að vera með slaufur og þá tókum við eftir því hvað það var lítið framboð,“ segir Einar en hann og kærasta hans, Hulda Birna, stofnuðu nýlega hönnunarfyrirtækið H&E design. Þar bjóða þau upp á skrautlegar slaufur úr prentuðu textílefni ásamt ermahnöppum og vasaklútum.

 

 

Slaufur

 FLOTTAR: Slaufur merktar fótboltafélögum eru vinsælar.

„Við erum með allt milli himins og jarðar. Það er lína með ofurhetjum, Superman, Spiderman og félögum þeirra, einnig geta menn fengið slaufur með uppáhaldsfélaginu sína í enska boltanum og nýjasta línan er úr gömlum íslenskum peningum og henni fylgja líka ermahnappar úr gömlum íslenskum krónum. Svo eru feðgaslaufurnar vinsælar en þá eru tvær samskonar slaufur saman í setti,“ segir Einar.

 

 

Hulda var á hönnunarbraut í Iðnskólanum en segist þó fá mestan fróðleik um slaufugerð á YouTube. Hulda og Einar segja samstarfið ganga vel og þau vegi hvort annað upp. „Hann er á bensíngjöfinni og ég er á bremsunni,“ segir Hulda og hlær en bætir við að með því náist gott jafnvægi.

SH-hoge-3

 FRUMLEGT: Nýjasta línan er úr gömlum íslenskum peningum og henni fylgja líka ermahnappar úr gömlum íslenskum krónum.

 

 

Hulda og Einar leggja mikið upp úr því að hafa framleiðsluna persónulega og eins íslenska og þau geta. „Við látum sauma slaufurnar hérna heima, prenta á efnið og höfum þetta allt eins íslenskt og þjóðlegt og við getum. Okkur langar til að starfa fyrir okkur sjálf, okkur langar til að lifa af því sem við erum að gera og geta gert það bara fyrir okkur. Allt okkar líf höfum við verið að vinna fyrir aðra en þetta er eitthvað sem við gerum fyrir okkur sjálf.“

 

 

Related Posts