Húð og heilsa – Fegurðarblundur:

Svefn er okkur öllum nauðsynlegur því á meðan við sofum er líkami okkar í viðgerðarfasa og endurnýjun verður í ýmsum vefjum, þar á meðal í húðinni. Í fullkomnum heimi fengjum við allar átta tíma endurnærandi svefn á hverri nóttu og húð okkar ljómaði af þvílíkri fegurð á morgnana að engin þörf væri á að nota farða. Í bláköldum raunveruleikanum er átta tíma svefn hins vegar álíka sjaldgæfur og einhyrningur. Það er samt engin ástæða til að örvænta því það má hámarka áhrif þess litla svefns sem þú færð með nokkrum góðum ráðum og tryggja þannig að þú vaknir aðeins fallegri en þegar þú fórst að sofa.

Næturmaski

Til að tryggja endurnæringu húðar yfir nóttina er nauðsynlegt að nota gott og virkt næturkrem. Einnig er gott að skipta næturkreminu stöku sinnum út fyrir rakamaska. Mörg snyrtivörufyrirtæki hafa hannað sérstaka næturmaska sem eru langvirkari en þessir hefðbundnu maskar. Body Shop slóst nýverið í hóp þeirra fyrirtækja og setti á markaði spennandi nýjan maska, Drops of Youth Bouncy Sleep Maks, en áferðin á honum er svolítið eins og á sykurpúða. Hann er mjög rakagefandi og eykur þéttni húðarinnar.

Hafðu hátt undir höfði

Þeim sem sofa á maganum eða á hliðinni hættir til að vakna þrútnar í kringum augun. Til að koma í veg fyrir vökvauppsöfnun á augnsvæðinu er betra að sofa á bakinu og með aukakodda til að hafa hærra undir höfði. Einnig er gott að nota augnkrem sem er ætlað að minnka þrotann, eins og til dæmis Ultimate Lift Eye Gel frá Ole Hendriksen en það er bæði létt og nærandi ásamt því að vera aðeins kælandi.

Sofðu á silki

Lengi hefur verið rætt um kosti þess að sofa á silkikoddaveri. Silki er mun mýkra og sleipara en bómull, þannig verður húðin fyrir minna áreiti og dregst síður til. Það gerir það að verkum að húðin stíflast síður, er laus við óþolandi svefnhrukkur á morgnana og til lengri tíma litið á silkið líka að sporna gegn almennum öldrunarhrukkum. Silkið hefur líka góð áhrif á hárið sem flækist síður og verður ekki úfið.

Vítamínsprengja

C-vítamín er orðið algengt innihaldsefni í ýmsum snyrtivörum sökum þess hvað það veitir húðinni mikinn ljóma og fallegra yfirbragð. Það kemur þó kannski einhverjum á óvart að besti tíminn til að nota vörur með C-vítamíni er einmitt á kvöldin því sólarljós gerir lýsandi áhrif þess óvirk. Til dæmis má nota Vitamin C Serum frá Novexpert en það er létt og áhrifaríkt serum sem ætlað er að auka ljóma og þéttni húðarinnar.

Raki og meiri raki

Á veturna er loftið bæði þurrt og kalt sem er ekki eins og best verður á kosið fyrir húðina. Best er að halda rakastiginu í svefnherberginu á bilinu þrjátíu til fimmtíu prósent og þá með hjálp rakatækis. Þannig má koma í veg fyrir að húð og varir þorni upp yfir nóttina og byrji að flagna. Hjá Eirberg má finnar ýmsar gerðir rakatækja á breiðu verðbili, Air-O-Swiss Mini er til að mynda mjög handhægt og hljóðlátt tæki sem notar hálfslítra vatnsflösku sem vatnstank.

Banaðu bólum

Því miður er það svo að við getum aldrei sagt skilið við bólur, þrátt fyrir að við séum löngu komnar yfir gelgjuskeiðið. Gott er að nota tækifærið og nota kröftuga bólubana á nóttunni til að reyna að útrýma þeim við fyrstu ummerki. Bestu bólubanarnir eru gel með salisylic-sýru sem myndar nokkurs konar hjúp yfir bólunni og eru þannig að virka alla nóttina.

 

Umsjón: Hildur Friðriksdóttir

Related Posts