Hulda Bjarnadóttir (41) tekur af skarið:

 

Fjölmiðlakonan Hulda Bjarnadóttir hefur ákveðið að segja skilið við einn vinsælasta morgunútvarpsþátt landsins, Bítið á Bylgjunni.

GAMAN: Hulda hefur notið sumarsins í golfi í góðum félagsskap.

GAMAN: Hulda hefur notið sumarsins í golfi í góðum félagsskap.

Allt í góðu „Já, ég er búin að leggja inn mína uppsögn,“ segir útvarpskonan Hulda Bjarnadóttir sem hefur staðið vaktina með mikilli prýði í einum vinsælasta morgunþætti landsins í útvarpi.

„Þetta er allt gert í mikilli vinsemd og ég skil sátt við strákana. Ég veit ekki hvert framhaldið verður né hvenær ég hætti en Þráinn tekur líklega við fyrst um sinn. Þráinn hefur alltaf verið stór partur af þættinum svo að það ætti ekki að koma hlustendum spánskt fyrir sjónir.“

Mikið að gera

Aðspurð hver sé ástæðan fyrir uppsögninni segir Hulda að mikið annríki skipti þar miklu.

„Ég er framkvæmdastjóri FKA (Félags kvenna í atvinnulífinu) og það starf hefur farið sístækkandi og orðið meira krefjandi. Því var ákveðið að gera framkvæmdastjórastöðuna að 100% starfi og ég tek við því með mikilli ánægju og bíð spennt eftir að sinna þessu krefjandi hlutverki.“

Hulda segir að hún hafi verið með of marga bolta á lofti síðastliðin misseri og ætli að fækka boltunum og setja fókusinn á færri verkefni.

„Þetta var svo sannarlega leiðinleg ákvörðun að hætta í útvarpinu en ákvörðun sem þurfti hins vegar að taka. Ég er þó ekki að útiloka að starfa aftur í fjölmiðlum. Ég hef reglulega farið í atvinnulífið en svo lent alltaf aftur í fjölmiðlum,“ segir Hulda og hlær.

Vön að vakna snemma

Forveri Huldu, Kolbrún Björnsdóttir, sagði upp á síðasta ári og sagði ástæðuna meðal annars vera vinnutímann en hann krefst þess að það sé vaknað snemma og farið snemma að sofa, Hulda segir það þó ekki hafa truflað sig.

„Ég er A-manneskja í grunninn og var með morgunþátt í gamla daga þar sem ég vaknaði svona snemma. Það hefur þó verið aðeins erfiðara á sumrin að fara sofa strax eftir tíufréttirnar þegar það er gott veður. Það er þó helst það að ég hef verið að sinna öðrum verkefnum til hliðar sem hafa krafist þess að ég sé að vinna fram eftir og þá hefur oft verið erfitt að vakna svona snemma á morgnana.“

GEISLANDI: Hulda ásamt manni sínum, Hauki Óskarssyni, sem starfar sem framkvæmdastjóri golfklúbbsins. Hér eru þau glöð og sátt eftir hring á Keilisvellinum.

GEISLANDI: Hulda ásamt manni sínum, Hauki Óskarssyni, sem starfar sem framkvæmdastjóri golfklúbbsins.

Sér manninn ekki á sumrin

Hulda er eins og fyrr segir framkvæmdastjóri Félags kvenna í atvinnulífinu og er margt á döfinni hjá henni þar.

„Nú erum við að byrja á nýju verkefni þar sem við erum að reyna að auka hlutfall kvenna sem viðmælenda fjölmiðla. Við gerðum könnun á fréttatengdu ljósvakaefni þar sem kom fram að 30% viðmælenda eru konur. Þetta er eitthvað sem þarf að laga. Konur þurfa líka að vera frakkari og byrja að sýna meira frumkvæði og stinga sér inn í umræðurnar.“

Sumarið er búið að vera viðburðaríkt hjá Huldu og hefur hún eytt bróðurpartinum á golfvellinum og þá aðallega á golfvellinum á Seltjarnarnesi þar sem maðurinn hennar, Haukur Óskarsson, starfar sem framkvæmdastjóri.

„Við erum öll fjölskyldan í golfinu og náum þar góðum tíma saman. Haukur býr eiginlega á vellinum á sumrin þannig að ég og krakkarnir nýtum þá tímann og fáum okkur að borða í skálanum þar og náum þar góðum og dýrmætum stundum saman öll fjölskyldan.“

 

Related Posts