Bergþóra Sigurbjörnsdóttir (65), kona Gústafs Níelssonar (61), styður sinn mann:

Allt ætlaði um koll að keyra þegar sagnfræðingurinn Gústaf Adolf Níelsson var skipaður sem varamaður Framsóknar og flugvallavina í mannréttindaráð Reykjavíkur. Skoðanir Gústafs á réttindum minnihlutahópa á Íslandi hafa vægast sagt verið umdeildar en Gústaf er líka eiginmaður sem er duglegur í eldhúsinu og hlýðinn að sögn konunnar hans.

Gústaf Adolf

DUGLEGUR AÐ ELDA: Bergþóra segir Gústaf duglegan að elda heima og galdri oft fram miklar kræsingar.

„Við kynntumst á kaffihúsi. Ég var þar að sækja vinafólk mitt og þá sátu þau með vinum hans Gústa. Ég settist og spjallaði við þau. Eftir þetta fékk Gústi númerið mitt hjá vinum mínum og við byrjuðum að deita. Síðan eru liðin ellefu ár og við erum enn saman,“ segir Bergþóra, kona sagnfræðingsins Gústafs Níelssonar sem var skipaður varamaður Framsóknar og flugvallavina í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar og varði í nokkrar klukkustundir.

Stefnir á að halda málverkasýningu

Bergþóra á lítið ræstingafyrirtæki sem sinnir hreingerningum út um borg og bí, þrífur nýbyggingar, stigaganga og margt fleira. Einnig málar hún í frístundum sínum og eru veggir heimilis hennar og Gústafs að Kristnibraut í Grafarholti þaktir fallegum málverkum. „Ég hef ekkert verið að selja eða sýna þau. Draumurinn er að halda sýningu en til þess þarf ég að mála aðeins fleiri verk. Ég er búin að gefa aðeins of mörg þeirra þannig að safnið hefur eitthvað minnkað. Það er samt allt að fyllast hérna heima, þannig að ég býst við að halda sýningu þegar vorið kemur.“

Hlýðinn og ljúfur

Bergþóra lýsir Gústafi sem ábyggilegum einstaklingi sem stendur við allt sem hann segir. „Gústaf er einstaklega ljúfur maður en þó með stórt skap. Við erum bæði frekar bráð en reiðin rennur fljótt aftur af okkur, síðan er það bara búið, við erum ekki mikið að velta okkur upp úr hlutunum. Við vinnum saman, þannig að við erum saman alla daga og allar nætur. Ég verð aldrei þreytt á honum sem segir margt um hversu skemmtilegur hann er. Okkur líður mjög vel saman einum og ég nýt þeirra stunda þegar við erum heima, hann með bókunum og ég að mála.“

Gústaf að sögn Bergþóru duglegur heima fyrir og er ósjaldan fyrir framan eldavélina. „Það er aldrei neitt vesen á honum heima, hann gerir bara það sem honum er sagt að gera. Hann er mjög hlýðinn,“ segir Bergþóra og hlær.

SH-img_3866

STERKAR SKOÐANIR: Gústaf er með sterkar skoðanir og duglegur að koma þeim á framfæri.

Hjónin eru mjög samhent og líður vel í nærveru hvort annars. „Gústaf er mjög skemmtilegur einstaklingur og hann lætur mér líða mjög vel. Við erum að sjálfsögðu ekki alltaf sammála en það er bara eins og gengur og gerist. Það sem einkennir okkar samband er að mínu mati góð líðan.“

Sammála skoðunum Gústafs á íslam

Gústaf er þekktur fyrir sterkar skoðanir og er duglegur að koma þeim á framfæri. Til að mynda lagði Gústaf til að Ísland bannaði íslömsk trúarbrögð og árið 2005 gagnrýndi hann harkalega frumvarp sem lagt var fram á Alþingi þar sem heimila átti hjónabönd samkynhneigðra. „Hann er með sterkar skoðanir sem alls ekki allir eru sammála og það er bara í lagi. Ég er sammála mörgu sem hann segir og síðan ósammála einhverju. Ég átta mig alveg á því hvað er að gerast í heiminum í sambandi við íslam, ég fylgist vel með fréttum um allan heim og þá sérstaklega Norðurlöndunum. Þannig að ég er mjög sammála því sem hann hefur að segja um íslam.“

Aðspurð hvort orð almennings um skoðanir Gústafs verði stundum ekki særandi segir Bergþóra svo ekki vera. „Ég sleppi því yfirleitt að lesa allt sem er skrifað um hann á Netinu. Að mínu mati fjallaði RÚV ekki vel um þetta mál því það var bara rætt við aðilana sem voru á móti skoðunum Gústafs en ekki hann sjálfan. Mér fannst hins vegar mjög skemmtilegt viðalið sem Heimir Már tók við hann á Stöð 2.“

 

Gústaf Adolf

GOTT HJÓNABAND: „Við erum bæði frekar bráð en reiðin rennur fljótt af okkur, síðan er það bara búið, við erum ekki mikið að velta okkur upp úr hlutunum,“ segir Bergþóra um hjónabandið.

 

Related Posts