Snókermeistarinn Jóhannes B. Jóhannesson (43) tók kjuðann af hillunni:

Jóhannes B. Jóhannesson sannaði það enn og aftur að hann er færasti snókerspilari landsins þegar hann sigraði Íslandsmótið með yfirburðum. Jóhannes hafði ekki keppt í snóker í tæplega tíu ár en ákvað að mæta aftur og sýna öllum hvernig á að gera þetta. Það er þó ekki bara snóker sem kemst að hjá Jóhannesi því hann ákvað að láta gamlan draum rætast og opna gistiheimili í Vestmannaeyjum.

Snóker  „Þetta gengur bara mjög fínt, bara rosalega vel. Þetta hefur verið gamall draumur hjá mér, að opna gistiheimili. Ég var búinn að skoða mörg hús og ég hef alltaf kunnað mjög vel við Vestmannaeyjar; núna ákvað ég að láta slag standa. Það var ekkert endilega planið að opna í Vestmannaeyjum en þetta gengur mjög vel. Ég kom hingað mjög oft á árum áður og var með kennslu og sýningar, það eru mörg snókerborð hérna í Vestmannaeyjum,“ segir Jói.

„Þetta hús var í niðurníðslu og því þurfti að laga heilmikið í því. Ég keypti húsið árið 2014 aðeins örfáum vikum eftir að sonur okkar, hann Gabriel Birgir, fæddist og lá því beint við að skíra gistiheimilið Gabriel Guesthouse en við opnuðum núna fyrr í sumar. Þetta var alveg tveggja ára verkefni.“

14324310_10154237687764584_948308558297957421_o

DRAUMUR VERÐUR AÐ GISTIHEIMILI Jói fyrir utan Gabriel Guesthouse sem finna má á gabrielguesthouse.com og á Facebook.

 

Kynntust á gistiheimili

Jóhannes hefur alltaf dreymt um að eiga gistiheimili og það má með sanni segja að hann og eiginkona hans smellpassi saman þar sem hún deilir með honum gistiheimilisdraumi hans.

„Konan mín og barnið eru ekki með mér núna, þau eru bæði í Reykjavík, en við erum komin með lögheimili hérna í Vestmannaeyjum,“ segir Jói en eiginkona hans er frá Brasilíu.

„Við kynntumst hér á Íslandi. Hún kom til Íslands upphaflega til að heimsækja bestu vinkonu sína. Það var alltaf draumur hennar líka að vera með sitt eigið gistiheimili. Besta vinkona hennar á íslenskan mann og þau eiga gistiheimili á Höfn í Hornafirði. Við kynntumst bara svona eins og gengur og gerist í dag, á Netinu, og síðan fór ég bara til Hafnar og við smellpössuðum saman.“

14310347_10154237688019584_7701121467620611472_o

FANN KONUNA Á NETINU Jói kynntist Gliciu á Netinu; þau smullu saman við fyrsta fund á Höfn í Hornafirði.

14310524_10154237687634584_8995246780380853810_o

SONURINN SEM GISTIHEIMILIÐ ER NEFNT EFTIR Glicia með son þeirra Jóa, Gabriel, um borð í Herjólfi á leið til Eyja. Sonurinn kom í heiminn stuttu áður en gistiheimilið var opnað og auðvitað er það nefnt eftir honum.

Vill alltaf vinna

Jóhannes er margfaldur Íslandsmeistari í snóker og án nokkurs vafa einn sá allra besti sem Ísland hefur alið af sér. Hann lagði þó kjuðann sinn á hilluna fyrir nokkrum árum en ákvað að láta reyna á Íslandsmótið í ár og til að gera langa sögu stutta þá pakkaði hann því saman.

„Ég held að ég sé með átján Íslandsmeistaratitla í heildina en sex í meistaraflokki. Ég hætti í kringum 2007 en síðan hef ég aðeins verið að leika mér inn á milli. Þetta hefur verið meira áhugamál núna, ég var auðvitað nánast kominn í atvinnumennsku þarna um aldamótin,“ segir Jói sem mætti með nýja taktík í síðasta Íslandsmót.

„Ég ákvað að mæta aftur og fékk mér linsur. Ég er búinn að reyna að spila með gleraugu og það hefur gengið hálf brösuglega þannig að ég ákvað bara viku fyrir þetta Íslandsmót að fá mér linsur í fyrsta skipti og það virkaði bara svona rosalega vel. Þessi sigur var í rauninni aldrei í neinni hættu,“ segir Jói og bætir við að hann hafi ekki mætt þangað til að vera með.

„Mig langaði bara að vinna mótið. Ég var ekkert að spila til að vera með, ég er ekki þannig. Það kom bara eitthvert hungur í mig aftur og mig langaði bara virkilega að taka þetta. Ég viðurkenni að það voru ekkert allir neitt sérstaklega sáttir við að gamli karlinn hafi komið þarna aftur og tekið þetta en þetta var alveg ótrúlega sætur sigur, líklega sá sætasti sem ég hef upplifað. Ég var nánast ekki búinn að æfa neitt í tíu ár. Það er ekki eins og ég hafi verið búinn að setja upp eitthvert æfingaprógram fyrir keppnina. Þetta er samt mismunandi, sumir spilarar þurfa að æfa mjög mikið en aðrir hafa þetta bara meira í sér,“ segir Jói sem hefur ákveðið að halda kjuðanum frá hillunni í smástund í viðbót.

„Ég hugsa að ég haldi áfram. Norðurlandamótið verður haldið hér á landi í janúar og planið er að taka þátt í því,“ segir Jóhannes en hann er þrefaldur Norðurlandameistari.

Heimasíða Gabriel Guest House hér.

Facebooksíða Gabriel Guest House hér.

14311394_10154237687574584_1705596862058168432_o

SIGURVEGARI EFTIR FRÍ Jói sigraði Íslandsmeistaramótið í maí síðastliðnum með yfirburðum.

14379808_10154237687579584_698501237835424681_o

MEÐ ÞEIM BESTA Í BRANSANUM Jói með besta snókerspilara allra tíma, Stephen Hendry.

14352135_10154237687884584_4598884211615849361_o

14258122_10154237687954584_2003209163446547723_o

GOS Á AFMÆLISDEGI PABBA JÓA Hér sést Gabriel Guesthouse lengst til vinstri á gosmyndinni, en hún er tekin 1973 þegar gos í Heimaey var hafið. „Gosið hófst á 40 ára afmæli föður míns heitins 23. janúar 1973 og ég fæddist 10. ágúst sama ár. Ferðamönnum sem til okkar koma finnst þetta skemmtilegur vinkill,“ segir Jói. Nýrri myndin sýnir hvernig húsið lítur út í dag.

Séð og Heyrt – skemmtilegt alla daga.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Related Posts