Gríma Kristinsdóttir (53) tekur við keflinu:

 

Á nýafstöðnum fundi Meistarafélags hárskera var kona, í fyrsta skipti í 90 ára sögu félagsins, kosinn formaður.

SH1411269200-4

SPENNT: Gríma segist spennt yfir komandi verkefnum sem fylgja því að vera formaður Meistarafélags hárskera.

„Ég er mjög spennt fyrir þessu starfi. Þetta félag hefur alltaf verið frekar sér á báti og karlarnir sem í því eru hafa haldið sig út af fyrir sig,“ segir nýkjörinn formaður Meistarafélags hárskera, Gríma Kristinsdóttir.

Gríma segir karlanna í félaginu hafa verið afar duglega og sinnt sínum skyldum vel. „Þeir hafa verið góðir þátttakendur í Mottumars og leggja ávallt sitt af mörkum þar.“

Gríma segir ekki mikið um formlegheit í félaginu og sé til að mynda eina nefndin í félaginu skemmtinefnd. „Það er alltaf mikið stuð í félaginu og góður andi. Mitt helsta markmið sem formanns verður að efla hópinn og hvetja fólk til að mæta á fundi. Ég á ekki sjónvarp og horfi því ekki á sjónvarpið á kvöldin. Mér finnst miklu skemmtilegra að fara út á meðal fólks og hvað þá að hitta fólk sem starfar við það sama og ég. Ég ætla að reyna að fá fólk til að koma út úr hreiðrum sínum og koma á fundi og hafa gaman.“

Gríma hefur í nægu að snúast því fyrir utan að sinna hlutverki formanns þá rekur hún hárstofu Grímu og er nemandi í Ljósmyndaskóla Íslands. „Það verður seint sagt að ég hafi lítið að gera. Ég má eiginlega ekkert vera að því að taka að mér formannsstarfið en þetta er það skemmtilegt að ég mátti ekki láta þetta fram hjá mér fara, ég sé bara sóknarfæri í þessu starfi og er spennt fyrir komandi verkefnum.“

Gríma

GRÍMA MEÐ GRÍMU: Gríma ber nafn með rentu og safnar grímum. Hún á orðið myndarlegt safn.

Related Posts