Wholesale-meat

BLÓÐUGT: Nei, takk!

Viku fyrir jól ákvað ég að gerast svo djörf að verða grænmetisæta sem borðaði þó enn fisk. Ástæðan fyrir þessu hjá mér var sú að ég stunda mikið jóga og fannst kjötát gera æfingarnar erfiðari.

Tímasetningin var furðuleg en ég fann innra með mér að þetta var það sem ég vildi gera.

Ég hringdi í mömmu sem sá um jólamatinn og sagði henni frá þessari ákvörðun minni. Hún tók furðuvel í þetta, enda enn meira álag sem ég var að leggja á elsku móður mína sem nú þegar þurfti að fæða fjögur önnur börn með sínar kröfur um kjúkingaputta og aðra eins vitleysu í stað steikarinnar.

Næst á dagskrá var að fara í matarboð til föður míns þar sem kjúklingur var á boðstólum. Þar sem að fósturmóðir mín vinnur í faglegri sælkeraverslun var „hamingjusamur kjúklingur“ í boði. Ég beit samt á jaxlinn og fékk mér kartöflur og vígalegt salat. Ég gekk satt best að segja furðusödd og ánægð frá matarborðinu.

Um jólin fannst mér þó erfiðast að fara til ömmu í hangikjöt þar sem ég sagði henni feimin frá því að ég væri að reyna að hætta að borða kjöt. Hún horfði á mig eins og ég hefði sagst ætla að ferðast til tunglsins og til baka og síðan aftur til tungslins og vera þar. Hún sagði: „Er það nú vitleysan sem þér dettur í hug, barn.“ Ég lét þessi orð sem vind um eyru þjóta og smakkaði alsæl á gómsætri sjávarréttasúpu.

Þegar að rútína hversdagsleikans dundi yfir mig varð þessi áskorun mér erfiðari með hverjum deginum. Hvert sem ég fór var salatið með kjúklingi eða samlokurnar allar með skinku. Morgunmatur helgarinnar innihélt yfirleitt beikon og salatið örlitla skinkubita.

Ég féll í gær og fékk mér skinkuhorn.

Ann Gréta Oddsdóttir

Related Posts