Ó, hvað ég vildi óska að veðurfar væri stundum nær því að vera hugarfar. Íslenska „sumarið“ í fyrra var greinilega ekki bara eitthvert frávik, heldur byrjun á vondri hefð.

Grá ský, sólin í fastri fýlu, himinninn vælir en býfluguhlussurnar snúa ætíð aftur í sínum bílförmum. Mínir árlegu bardagar við geitunga hafa þó eitthvað verið af skornum skammti þetta árið. Kannski eitthvað tengt óreglulega grillveðrinu en mín þeóría er sú að ég hef orðið fyrir meiri óvæntum óþægindum (og tilheyrandi pirringi) frá þeim fáeinu kvikindum sem sveiflast nú á tíðum um götur höfuðborgarinnar: fanatísku hjólreiðafólki.

Einn daginn viljum við líkjast vestræna heiminum meira, þann næsta þessum hjólóðu dönsku frændum okkar. Án þess að tala beinlínis niður til allra sem eru á hjólum (eitthvað sem ég sjálfur stunda … stundum) þá finnst mér persónulega vera munur á því að þekkja sín réttindi og vera idjót í umferðinni þegar slétt og fín stétt blasir beint og jafnvel ómönnuð við hliðina á þeim. Þessir á hraðbrautunum eru þó verstir og stinga alveg á réttum stöðum.

Stöðugt ruglar maður sjálfan sig yfir því hvort liðið sé blint, hvort þetta sé einhver „statement“ hreyfing eða hvar í ósköpunum sé hægt að útrýma búum þeirra. Ógleði mín á þessu hefur þar að auki smitast og beint af leiðandi magnast eftir ýmsar nauðhömlunarsögur annarra, fjölbreyttari en maður hefði haldið.

Blíðuna þarf svo sem ekki til að skella á sig góðum hjálmi og velja orkugefandi ferðamátann sem mengar ekkert út fyrir magaástand reiðmannsins. Þennan ferðamáta vil ég tileinka mér áfram en mun þverneita, og hvet aðra til þess líka, að breytast í vibbalega götupöddu.

Ef það skyldi aftur á móti ekki ganga, getum við alltaf farið í hina áttina, nýtt okkur sömu réttindi og tekið göngutúrana úti á götunum eins og ekkert sé, þar sem fólki á farartækjum er tæknilega séð auðvitað skylt að negla okkur ekki niður. Ég styð þá hugmynd í hel, ef ekki bara til að pirra „hin“ skordýrin sem gefa stefnumerki með handleggnum, eða eiga í það minnsta að gera það.

 

Tómas Valgeirsson

Related Posts