Sophia Loren (79) Gina Lollobrigida (87) Birgitte Bardot (79) og allar hinar:

 

Fegurðin er flókið fyrirbrigði sem tekur breytingum í áranna rás. Þó eru ákveðnir einstaklingar sem eru ljóslifandi í minningu fólks vegna fegurðar sinnar – hér eru nokkrar fallegustu konur allra tíma.

 

FEGURÐARDÍS

Sophia Loren fæddist 20. september árið 1934 á Ítalíu. Loren byrjaði feril sinn 14 ára þegar hún tók þátt í fegurðarsamkeppni. Eftir að hafa vakið athygli þar byrjaði hún að sækja leiklistartíma og lék lítil hlutverk þangað til Parmount-kvikmyndaverið hafði samband og fékk hana til að skrifa undir fimm mynda samning. Hún vann sinn fyrsta leiksigur árið 1962 þegar hún lék Cesira í Two Women og fyrir frammistöðuna fékk hún hinn eftirsótta Óskar.

 

 KLASSÍSK FEGURÐ

Audrey Hepburn fæddist 1929 og lést árið 1993. Hepburn var, eins og margir vita, bresk leikkona en einnig mikil baráttukona fyrir mannréttindum. Hún var og er mikil tískufyrirmynd kvenna um allan heim og þekkt fyrir yfirvegaðan og klassískan stíl. Hepburn var balletdansari áður en hún hellti sér í leiklistina. Hepburn var fyrsta leikkonan til að vinna Óskars-, Golden Globe- og BAFTA-verðlaunin á sama ári en það var fyrir frammistöðu sína í Roman Holiday.

 


 

PRINSESSA

Grace Kelly, fædd árið 1929, var leikkona og furstaynja af Mónakó, eiginkona prins Rainier III. Árið 1953 stimplaði hún sig rækilega inn í kvikmyndaheiminn með frammistöðu sinni í myndinni Mogambo. Árið eftir var stórt ár hjá Grace en þá var hún tilnefnd til Gloden Globe- og Óskarsverðlaunanna sem og hún lék lykilhlutverk í fimm myndum, meðal annars í Country Girl. Grace hætti að leika einungis 26 ára gömul til að giftast prins Rainier í Mónakó. Þau eignuðust þrjú börn, Caroline, Albert og Stéphanie. Kelly dó árið 1982 þegar hún fékk slag og missti stjórn á bifreið sinni. Dóttir hennar, Stéphanie, var í bílnum með henni en hún lifði slysið af.

 GLAMÚR OG GLÆSILEIKI

Elizabeth Taylor var barnastjarna hjá kvikmyndarisanum MGM. Taylor var þekkt fyrir mikla leiklistarhæfileika, mikinn glamúrlífsstíl og dökkbláu augun sem oft var lýst sem fjólubláum. Hún sló í gegn árið 1944 með leik sínum í National Velvet. Taylor vann Óskarinn fyrir leik sinn í Butterfield 8, þá 28 ára gömul. Taylor fékk mikla athygli fjölmiðla í einkalífinu, meðal annars fyrir hjónabönd sín en hún gifti sig alls átta sinnum. Taylor dó árið 2011 eftir að hafa glímt við veikindi í allmörg ár.

 PLAGGATPÍA

Leikkonan og kyntáknið Raquel Welch fæddist árið 1940. Hún vakti fyrst athygli fyrir hlutverk sitt í Fantastic Voyage árið 1966. Welch fór með hlutverk í myndinni One Million Years B.C. árið 1966 þar sem hún fór einungis með þrjár línur en bikiníið sem hún klæddist í bíómyndinni er líklega eitt frægasta bikiní sögunnar. Plaggatið sem sýnir hana í þessu fræga bikiníi varð söluhæsta plaggatið á þeim tíma og þeir voru ekki margir strákarnir sem voru ekki með þetta plaggat hengt upp á vegg hjá sér.

 

 


 

FRÁ FÓSTURBARNI Í FYRIRSÆTU

Leikkonan, fyrirsætan og söngkonan Marilyn Monroe, eða Norma Jeane Mortenson, síðar Baker, fæddist árið 1926 og lést árið 1962. Monroe sem eyddi mestallri barnæsku sinni á fósturheimilum vakti athygli fyrirsætuútsendara og varð fyrirsæta áður en hún skrifaði undir samning árið 1946 við kvikmyndarisann Twentieth Century-Fox. Hún vakti fyrst athygli í The Asphalt Jungle og All About Eve árið 1950. Monroe fékk Golden Globe-verðlaunin fyrir frammistöðu sína í Some Like it Hot. Það hafa verið ýmsar samsæriskenningar í kringum dauða Monroe þar sem vafi leikur á hvort hún hafi í raun framið sjálfsmorð eða verið myrt.

 


 

FRÆGT VIÐTAL

Gina Lollobrigida er ítölsk leikkona sem hefur í seinni tíð unnið sem fréttaljósmyndari og listamaður. Lollobrigida tók þekkt viðtal við Fidel Castro árið 1974. Gina vakti fyrst athygli fyrir þátttöku sína í fegurðarsamkeppnum og varð meðal annars þriðja í Ungfrú Ítalíu árið 1947. Sem leikkona er hún  þekkt fyrir myndir eins og Never So Few þar sem hún lék við hlið Franks Sinatra og svo í Come September.

 

 


 

DÝRAVERNDUNARSINNI

Brigitte Bardot, eða Brigitte Anna-Marie Bardot, er frönsk leikkona, söngkona og fyrirsæta. Brigitte fæddist árið 1934 og var ballerína á sínum yngri árum. Hún byrjaði leikferil sinn árið 1952 og varð heimsfræg árið 1957 með leik sínum í And God Created Woman. Bardot sagði skilið við skemmtiiðnaðinn árið 1973 og hafði þá leikið í 47 myndum. Eftir að hafa snúið bakinu við leiklistinni einbeitti hún sér að dýravernd.

 FYRSTA BOND-GELLAN

Ursula Andress fæddist árið 1936 í Sviss. Ursula er best þekkt fyrir leik sinn í fyrstu Bond-myndinni, Dr. No, þar sem hún lék Bond-píuna Honey Rider en fyrir þann leik vann hún til Golden Globe-verðlauna. Hún lék þar í einni þekktustu bíósenu allra tíma þar sem hún stígur upp úr Karíbahafinu klædd hvítu bikiníi og með stóran köfunarhníf fastan við mjöðmina. Ursula lék meðal annars á móti Elvis Presley árið 1963 í myndinni Fun in Acapulco. Eftir að hafa eignast son sinn árið 1980 minnkaði hún umsvif sín í Hollywood og einbeitti sér frekar að evrópskum myndum.FEGURÐIN TIL TRAFALA

Vivien Leigh var bresk leikkona sem vann tvisvar Óskarinn eftirsótta fyrir frammistöðu sína í myndunum Gone with the Wind og A Streetcar Named Desire. Leigh kvartaði oft undan því að henni fyndist hún ekki vera tekin alvarlega út af fegurð sinni. Leigh dó í maí árið 1967 einungis 53 ára gömul en hún var illa haldin af berklum.

 


 

ILLA FARIN

Kim Novak er amerísk leikkona sem byrjaði feril sinn 21 árs gömul, árið 1954. Hún þurfti ekki að lifa lengi sem stelpa í leit að frægð en hún fékk aðalhlutverkið í myndinni Picnic einungis ári seinna. Eftir að hafa verið áratug í kvikmyndabransanum dró Novak sig út úr sviðsljósinu en birtist annað slagið í myndum þangað til árið 1991 en þá hætti hún alfarið eftir að hafa lent í harkalegum árekstri við leikstjórann Mike Figgis. Það voru margir kvikmyndaunnendurnir sem fengu nett áfall þegar að Novak birtist á Óskarsverðlaunahátíðinni árið 2014 en þá kom í ljós að útlit hennar er orðið ansi illa útileikið eftir allmargar heimsóknir til lýtalækna.

 

Related Posts