Handskrifuð ljóðabók Bjarkar Guðmundsdóttur (49) seldist á eBay:

Fágæt ljóðabók sem Björk Guðmundsdóttir samdi og myndskreytti á unglingsárunum er seldist í gær á uppboðsvefnum eBay og fór á 1750 dollara eða tæpar 242.000 krónur. Kaupandinn er bandarískur tónlistarmaður.

UM ÚRNOT:Forsíðan myndskreytt og árituð af Björk sjálfri.

UM ÚRNOT:Forsíðan myndskreytt og árituð af Björk sjálfri.

Bókin heitir Um Úrnot og líklegt þykir að Björk hafi skrifað bókina í kringum 1984, þegar hún var nítján ára. Jafnvel fyrr. Upplagið var ekki stórt og það sem gerir bókina sem kom nýlega í leitirnar einstaka er að hún er ekki prentuð, heldur handskrifaði og myndskreytti Björk hverja bók. Engar tvær eru því eins.

Seljandinn lét þess getið á uppboðsvefnum að á bókarkápunni séu nokkrir kaffiblettir. Einnig kom fram að Björk hafi selt bókina á götum Reykjavíkur og að bókin hafi verið keypt af söngkonunni þegar hún var við það að slá í gegn á Íslandi.

Teikningarnar í bókinni eru heillandi og skýr vottur um takmarkalaust ímyndunarafl Bjarkar. Stuttur og knappur texti henannar hlýtur að flokkast sem einhvers konar súrrealismi og það er ekki heiglum hent að fá botn í kveðskapinn. Þá er rithönd hinnar ungu Bjarkar svo sérstök að textinn er erfiður aflestrar.

Related Posts